08.11.2011 20:44

Veðurlottóið, Sá stóri að hafast?.

 Þó haustið hafi verið hundleiðinlegt eða allavega tíðarfarið, hefur það þotið hjá á ógnarhraða.

Mykjudreifing og plægingar hafa algjörlega setið á hakanum og þessir eldri og lífsreyndari sem hafa ítrekað frosið inni með hvorutveggja gegnum tíðina var hætt að lítast á blikuna.

 Það kom því bráðskemmtilega á óvart að um leið og mykjuhræringu var lokið, bregður allt í einu til betri tíðar og meira að segja hægviðrið sem er enn vinsælla en vanalega þegar að mykjudreifingu kemur, virðist vera komið til að vera.



 Það var byrjað á fullu í dag og stefnt að því að tæma bæði haughúsin hæfilega fyrir helgina svo þau dugi fyrir áburðarframleiðslu vetrarins.



  Í framhaldinu verður svo vonandi hægt að taka góða törn í plægingum áður en harðindin hellast yfir okkur af fullum þunga. Já, það þarf að vísu að þorna aðeins um fyrst og ekki væri verra að ná því sem eftir er af hálminum en ekki hefur gefið í það enn.

 Í fjósinu er að sjálfsögðu alltaf eitthvað að gerast og önnur 40 l. kúin á bænum sem lagðist í doða alveg uppúr þurru, komst sem betur fer á lappirnar aftur.

 Og nýmunstraður dýralæknir okkar Snæfellinga hann Hjalti, var ræstur út í morgun til að ná kálfi í heiminn. Kálfurinn var dauður, trúlega fyrir nokkrum dögum og er sá þriðji í vetur sem kemur burtkallaður, í þennan heim.
Kálfadauði fyrir burð er annars frekar óalgengur hér á bæ.

 Til marks um endalausan fjölbreytileika sveitalífsins var ég svo ræstur út eftir hádegið með miklum látum af Hestamiðstöðvarfólki, til að aðstoða við að ná hryssu uppúr skurði.
 Þarna var vant og harðsnúið lið á ferðinni og björgunaraðgerðir tókust fljótt og vel, Hryssunni náð upp, troðið inn í kerru og beint í gjörgæslu inn í hesthús.

Það var hinsvegar svo af henni dregið, að í þessum skrifuðu orðum er óljóst hvort hún hefur þetta af..

Já, enginn tími til að láta
sér leiðast í dag.
Flettingar í dag: 1097
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806230
Samtals gestir: 65280
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:31:20
clockhere