13.07.2011 21:17

Brakandi þurrkur og glottandi danir.

 Það er búið að ríkja hér brakandi þurrkur í óratíma: Grasið er slegið og þeir sem vilja halda nokkru rakastigi mega hafa hraðar hendur að rúlla því. Hinir sem vilja hafa velþurr hey í boði gátu látið heyið liggja í 1 - 2 sólarhringa , rakað upp og rúllað, án þess að snúa.

  Sprettan er misjöfn en sendnu túnin fara mjög illa í þessu tíðarfari. Mýrartúnin sem fengu áburðargjöfina tímalega virðast ætla að skila sínu og eftir að hafa rúllað megnið af fyrri slættinum er ljóst að hér er að nást meðaluppskera. Allt vallarfoxið var slegið um skrið svo þrátt fyrir að vera um 1/2 mán seinni  að slá eru gæðin fín.

 Hér er einungis notaður  N áburður með mykjunni og það sást vel hvar hún var ofmetin eða réttara sagt ekki borið nægilega mikið á af henni. 


 Það stóðst svo á endum að rúlluvélin klikkaði á síðustu hekturunum á 4. bænum sem hún þjónustaði í þessari törninni.
 Þó þarna hafi bara farið rafsuða, tók greiningin langan tíma og erfitt að komast að til viðgerðar.
Það er því órúllað á nokkrum ha. og þó mikil rigning sé eitthvað sem sárvantar, kom það sér vel fyrir viðkomandi að ekki ætlar að blotna að ráði í múgunum hjá honum.

  Nú er svo verið að bera á fyrir seinni sláttinn þó seint sé, svo aftur komist skikk á rúllulagerinn.


 Danirnir í hundasjói dagsins, hlógu að mér þegar ég reyndi að fullvissa þá um að hér væri alltaf logn og blíða eins og í dag. Trúlega hefur annar gædinn þeirra, sem er fyrrverandi sveitungi verið búinn að segja þeim einhverja vitleysu.

Flettingar í dag: 215
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 449
Gestir í gær: 22
Samtals flettingar: 722861
Samtals gestir: 61211
Tölur uppfærðar: 28.1.2025 03:42:57
clockhere