17.07.2010 20:10
Strútsstígur - örblogg
Nokkrar staðreyndir úr gönguferðinni. Nánari lýsing væntanleg og þá með myndum.
Okkur Sif hefur ekki tekist fyrr að vera með hæfilegt af mat, alltof mikið súkkulaði á Lónsöræfum, flatkökur fyrir heila herdeild á Hornströndum, en núna bara hæfilegt af öllu. Ja, hefði kannski mátt vera meira SvissMiss.
Veðrið gott til göngu, fengum samt einhverja rigningu alla dagana en eiginlega alltaf lóðrétt og mild, svona hálf útlensk rigning. Hætti fljótlega að fara í hlífðarbuxur því nýju göngubuxurnar virtust vera vatnsfráhrindandi. Rétt aðeins í lok einnar dembunnar að ég varð rassblaut þegar rann af bakinu. Datt í hug vísan sem Einar í Hlíð orti eitt sinn þegar ég kom þar ríðandi, vot inn að skinni:
(Læt fyrripartinn ekki á prent)
Á henni Höllu allt er blautt
að því er hún segir.
Alla daga þurfti að vaða og þá stundum grýttar og vatnsmiklar ár. Fínu vaðskórnir mínir sönnuðu enn og aftur gildi sitt.
Ekki spillir græni liturinn,en hvort þetta er framsóknargrænt eða Vinstri -grænt skal ósagt.
Engar blöðrur og engar harðsperrur, en fljót að sofna eftir löngu dagleiðirnar. Ekki verra að hafa sílikontappa í eyrum.
Góður hópur, 2 fararstjórar og 18 gönguhrólfar. Þarna voru göngufélagar úr fyrri gönguferðum, Ásta Birna og Gunnar voru með á Lónsöræfum og Hornströndum, Inga og Ingvar á Lónsöræfum og Hrefna og Særún á Hornströndum. Þarna voru líka Vestlendingar, Kristín frá Kópareykjum og hennar maður sem er frá Hvammi í Hvítársíðu og heitir Guðmundur. Þetta árið voru leikskólakennarar í meirihluta og enginn veðurfræðingur sem kannski útskýrir rigninguna.
En góð ferð, lítið um fjallgöngur, lítil aska þó við værum þarna norðan Mýrdalsjökuls.
Meira seinna þegar ég hef fengið góðar myndir.