22.06.2010 21:38

Traktor sundur og saman - og slátturinn.

Dráttarvélar nútímans eru háþróuð tækniundur , uppfull af allskonar rafmagnsfídusum og tölvuheilum.

 Þegar minnst varir geta þær átt það til að stoppa í miðju verki og gefa viðvörunarljós og villikóða eða nefndu það bara.

Þá er hringt í þjónustufulltrúann sem í okkar tilviki er hann Össur í Jötunn Vélum, og hann slær villukóðann  inn í tölvuna hjá sér og segir okkur svo hvað tengi það er sem komin er spanskgræna á eða e.h. þ.h.

 Sjaldnast sleppum við nú samt svona vel en það er önnur saga.

 Það var hinsvegar gamli Deutsinn okkar sem er algjörlega laus við þetta rafmagnskjaftæði sem var að ergja okkur aldrei þessu vant
.
Kúplingin fyrir aflúttakið virkaði ekki og eftir miklar pælingar var niðurstaðan sú að rörsplitti í öxli í kúplingshúsinu væri brotið.

 Til þess að komast að splittinu þyrfti einungis að opna lok ofan á kúplingshúsinu.

Því miður þurfti hinsvegar að taka húsið af traktornum til að komast að lokinu.

Og þar sem nokkrir dagar voru í slátt og kreppa í landinu réðust bændurnir á traktorinn.



 Húsið losað, aftengt og híft af.



 Þegar svona var komið mundum við að í vélinni var orginal kúplingin sem hefur verið mikið og illa notuð síðan 1984. Þegar kom í ljós að allt í hana var til hjá Þór og búið að ná hæfilegum kreppuafslætti á tiltölulega gott verð var skipt um hana með hraði.



 Það var síðan kíkt á eitt og annað í leiðinni því þetta er vél sem hefur aðeins verið sett hráolía á annað slagið svo hefur hún bara verið keyrð og keyrð.

 Verkfæraskápurinn sem við fjárfestum í stútfullum af verkfærum í vetur, kom í góðar þarfir og hefur trúlega farið langt í að borga sig upp í aðgerðinni.


 Annars er það búvélaverkstæðið í Vélabæ sem þjónustar okkur. Þar fer saman einstök lipurmennska, góð þjónusta og reikningar sem manni finnst alltaf vera sanngjarnir.


Og nú er brostinn á þurrkur, á alveg hárréttum tíma og fyrri slætti í Dalsmynni gæti lokið á fimmtudaginn ef allt gengur upp.

Flettingar í dag: 3296
Gestir í dag: 128
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 651394
Samtals gestir: 58004
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 11:18:07
clockhere