30.04.2010 23:52
Skítur, bilanir, stress og prútt.
Þetta eru ekki tíðindalausir dagar sem nú þjóta hjá á ógnarhraða.
Mykjunni er ekið á tún og flög með miklum tilþrifum og þar sem gamli 5 tonna dreifarinn er ekki inni í dag eru leituð uppi leigutæki til að redda málunum.
Þessi tækni hér að geta tengt sogstútinn án þess að fara úr dráttarvélinn er mikil bylting, sérstaklega á þeim býlum þar sem var alvöru húsbóndi og frúin sá um að tengja haugsuguna svo bóndinn þyrfti ekki að yfirgefa dráttarvélina.
Þegar bilaði lega í dælunni í fyrradag fór allt skipulag vorverkanna úr skorðum og sér ekki fyrir endann á þeim skelfingum.
Þrátt fyrir mildan vetur gerði frostakafla á auða jörð og frost í jörð hefur tafið sáningu þar til nú.
En nú eru tækin farin að snúast og aldrei þessu vant er það ekki bleytan í ökrunum sem hrjáir okkur heldur mega þeir ekki þurrari vera.
Það verður að gæta þess að láta ekki of langan tíma (helst engan) líða milli tætingu og sáningar ef ekki á allt að ofþorna.
Áburðurinn er kominn í sveitina en nú var skipt um áburðasala í Dalsmynni.
Það var óvenjulega erfið samningalota núna, því ég var ákveðinn í að pína áburðarsalann til hins ýtrasta. (Sem er ekki mikið).
Sá vænlegasti var síðan píndur aukalega áður en málinu var lokað en við vorum nokkrir saman í pakka með um 70 tonn.
Þriggja ára olíusamningur fyrir sama hóp er svo trúlega laus á næsta ári og þá er röðin komin að Einari að pína viðsemjendur okkar.
Fræsalinn okkar hann Elías í Líflandi er þó löngu kominn út úr öllum píningum, því við fáum bestu verðin hjá honum án þess að nefna það. Þó þau séu nú að vísu ekkert góð lengur.
Og þegar ég þurfti að bæta smávegis fræi við eftir hádegi í dag var ekki nóg með að það væri til, heldur var það komið á hlaðið hjá mér eftir nokkra klukkutíma.
Þetta er samt allt annað líf að eiga við vorverkin núna en í fyrra þegar allt var forblautt og klaki framí í mai. .
Stressið er samt ekkert minna.