15.04.2010 00:07
Skeljasandskeyrsla, og óhemju umhverfisvæn náma.
Það er stefnt að því að ljúka skeljasandsakstri frá Skógarnesi á morgun.
Það voru farnar 3 ferðir á fjörunni í gær en ekki náðist nema 1 ferð í dag vegna ýmissa frávika frá alvörunni.
Þó ég sé náttúrulega mikill umhverfissóði og landníðungur eins og flestir sem eru að nýta fósturjörðina sér( og öðrum) til framfæris, finnst mér alveg sérlega skemmtilegt hvernig hægt er að ná skeljasandinum án nokkurra varanlegra ummerkja.
Farið er af góðum vegi beint niður í fjöruna og dólað eftir henni suðurfyrir Skógarnesið þar sem sandurinn er tekinn í fjöruborðinu.
Farið er þvert yfir nesið eftir sandgeil þar sem sjávarmöl er í botninum og öll för horfin eftir næsta sandbyl.
Sandurinn er tekinn úr flæðarmálinu og eftir nokkur flóð eru öll ummerki horfin . Bæði eftir sandtökuna og förin eftir vélarnar á fjörunni.
Ég reikna með að ef einhver umhverfisvænn kæmi að mér við þetta akstursbrölt utanvegar yrði ég í slæmum málum, en sem betur fer er háttvirtur umhverfisráðherra algjörlega upptekin við að upphugsa lög svo öll nýju hraunin verði ekki " eyðilögð " um leið og þau verða til.
Reyndar finnst mér að hún mætti nú líka hafa í huga öll gömlu hraunin sem hljóta að vera í stórhættu víðsvegar um landið ef svo heldur sem horfir.
En ég vona það að verða svo heppinn í sumar, að geta einhverntímann lagt á með Skóganesbóndanum og riðið þarna um nesið.
Þá verða öll verksummerki eftir níðingsverkið örugglega á bak og burt.
Og kannski kominn nýr umhverfisráðherra.