10.02.2010 23:33

Vakinn um miðjar nætur.- Af löggunni.- engar myndir.

  Ég var vakinn með símhringingu rétt fyrir kl. 4 aðfaranótt sl.sunnudags.

 Þetta var lögga í Borgarnesi, sem var að forvitnast, og þar sem þetta var góður kunningi minn og ágætis lögga í þokkabót fyrirgaf ég honum ónæðið.

 'Eg var hinsvegar smá andvaka á eftir.

Ég veit ekki hvað aðrir gera en ég fer alltaf að velta einhverju misskemmtilegu fyrir mér þegar ég verð andvaka.

 Ég fór að velta því fyrir mér að það væri orðið býsna langt síðan ég var vakinn upp af löggu með símhringingu um miðja nótt.

 Það hefur nefnilega gerst ótrúlega oft, að ýmsar löggur hafa séð ástæðu til þess að raska næturró minni af margvíslegun tilefni.

 Þetta náði sögulegu hámarki þegar farsímavæðingin var langt komin því ökumenn á leið um sunnanvert Nesið voru mjög tilkynningaglaðir um það sem þeir sáu á ferðum sínum, sérstaklega að næturlagi.

 Þessi tilkynningargleði ökumannana hefði ekkert komið mér  við  ef ekki hefði viljað svo óheppilega til að þeir voru ýmist fyrir " vestan " eða " austan"  Dalsmynni þegar þeir sáu hross eða nautgripi á vegi, kind sem ekið hafði verið á og var " kannski " með lífsmarki , bíl útaf sem þeir gáðu ekki frekar að o.sv. frv.

 Undantekningarlaust var fjarlægðin í umrætt skýrsluefni afar óljós og reyndar var stundum talað um nálægt Dalsmynni en ekki vitað hvoru megin o.sv frv.

 Þó að ég þrætti eins og sprúttsali fyrir að eiga hross á vegum eða ákeyrða kind og fullyrti að þeir sem lent hefðu utan vegar, væru annaðhvort komnir heim til sín eða víðsfjarri Dalsmynni enduðu þessi samtöl oftast með því að ég dróst á fætur og reyndi að hafa upp á viðfangsefninu.

Það tókst ekki nærri alltaf.

 Eftirminnilegast er þó þegar ég var vakinn upp um kl. 3 og beðinn að aflífa slasaða kind við brúna yfir Haffjarðará.

 Svona beiðni jánkar maður vafningalaust, svo ég græjaði mig, skellti mér í veiðijakkann og brenndi þessa 5 km. suður að brú.

 Þegar þangað kom gaf á að líta., Á miðri brúnni lá mikið slösuð ær sem hélt þó höfði en beggja vegna biðu bílar þess að eitthvað gerðist.

Vestan brúarinnar biðu 2 bílar en 3 sunnan hennar.

Vafalaust hefur viðkomandi þótt hér um grafalvarlegt atvik að ræða og beðið eftir blikkandi bláum ljósum,  sjúkrabíl og dýralækni.

 Þess í stað kom einhver Rambó  með hlaupsagaðan riffil í hendinni sem var kindabyssan mín á þeim tíma..

 Til að setja trúverðugan endi á þetta fyrir ferðafólkið, færði ég kindina gætilega til hliðar á brúnni og benti síðan bílstjórunum á að yfirgefa svæðið áður en málinu yrði lokað.

Fyrst þetta átti að gerast, hefði mér þótt seinnipartur föstudags mun heppilegri tími.

Þá hefðu kannski myndast alvöru bílalestir.emoticon 


 

 
Flettingar í dag: 769
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 805902
Samtals gestir: 65278
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:10:16
clockhere