16.10.2009 21:59
Að sofa eins og ungabarn, í kreppunni.
Já, kreppan hefur margvísleg áhrif á hann sagði mín heittelskaða við afgreiðslumanninn í Húsasmiðjunni.
Hann sefur meira að segja eins og ungabarn, bætti hún við.
Þegar afgreiðslumaðurinn leit á hana spurnaraugum sagði hún með útskýringartón í röddinni.
Hann sefur dálítið óreglulega, hrekkur upp, grætur pínulítið og sofnar svo aftur.
Umræðuefnið sem stóð við hliðina á þeim og hafði það eitt til saka unnið að hafa tuðað lítilsháttar um eitthvað smálegt eins og uppstillingar á jólaskrauti, blandaði sér ekkert í þessa umræðu.
Þó dagurinn hefði ekki verið alslæmur varð samt sitthvað til að ergja mig.
Sölumaðurinn hjá BM Vallá hafði hringt í mig um morguninn og sagt mér að plöturnar og vindhlífarnar væru tilbúnar. Þetta voru góðar fréttir með vindhlífarnar en verri með litaða bárujárnið.
Daginn áður þegar bráðvantaði 2 litaðar bárujárnsplötur til að ljúka fjósklæðningunni var mér sagt að þær væru ekki til og ekki væntanlegar næstu dagana/vikurnar. Sölumaðurinn sagði mér þó, að kannski væri til afgangur á rúllu og þá yrði hægt að bjarga þessu. Ég skal gá að þessu og láta þig vita bætti hann við.
Þegar kom fram á daginn og ekkert heyrðist úr Borgó var farið í að redda þessu með öðrum hætti sem tókst.
Þegar ég hafði svo sótt vindhlífarnar leist mér ekkert á það sem ég sá, en hafði engin orð um það, þar sem ég gat engum kennt um nema sjálfum mér að hafa ekki ígrundað þá smíði aðeins betur.
Plöturnar tók ég hinsvegar ekki og á eftir að leysa það mál við sölumanninn.
Smiðirnir sem höfðu laumast til mín úr öðru verki, svo klæðningin kæmist á fyrir veturinn, eru svo hættir í bili, enda skortur á efni til að ljúka við þakkantana.
Ég var búinn að gleyma amstrinu og vandamálunum sem fylgja framkvæmdum, hversu litlar sem þær eru.
En eins og allir með góða samvisku sef ég eins og steinn, (ekki eins og ungabarn).