29.08.2009 20:40

Fjárhundakeppni í Miðengi Grímsnesi.

  Það var brakandi blíða í Landskeppni fjárhunda í Miðengi í dag og fór vel um gesti og keppendur.



 Nýstofnuð smalahundadeild  Sunnlendinga stóð að þessu af miklum myndarskap og að lokinni keppni og aðalfundi í dag var síðan mikil hlöðuveisla á staðnum.

 Hundarnir eru sífellt að verða betri með hverju árinu sem líður og þarna voru t.d. mættir til leiks 8 unghundar. (Yngri en 3 ára).

 Ég hef ekki fyrr séð svona marga góða unghunda mæta í keppni.

Í unghundakeppninni urðu efst Gísli í Mýrdal með Kötu frá Daðastöðum með 56 stig.

 Það verður þó að segjast að kindurnar voru í erfiðara lagi.

Þó maður haldi því fram að ef hundarnir ráði ekki við allar aðstæður séu þeir ekki nógu góðir, þá er aldrei gaman að horfa á keppni þar sem allt er í basli. Og stigafjöldinn verður frekar slakur í heildina.

Þetta var algeng sjón í keppninni. Hér standa kindurnar framan í Snilld með þráasvip á andlitinu/sviðunum. Þær sóttu yfirleitt stíft útúr brautinni í átt að bænum og fæstir hundanna voru að höndla þessar aðstæður vel.

 Þetta var fyrri keppnisdagurinn fyrir A og B flokkana.

Efstir eftir þetta fyrra rennsli voru Varsi á Eyrarlandi og Mac í A flokki með 86 stig og í B fl. voru jafnir með 46 stig þeir Valli í Grundarf. með Snót og Reynir á Hurðarbaki með Tútú frá Daðastöðum sem er nú reyndar aðeins rúmlega tveggja ára. Hún lenti einnig í öðru sæti í unghundaflokki.


                     Mac í góðri sveiflu.

  Þær Tútú og Kata(efst í unghundafl) eru systur úr sama goti frá Daðastöðum undan Soffíu og Dan.

 Þarna sá ég í fyrsta sinn Mac og Dot í keppni en þau voru flutt inn tamin og vön úr keppnum úti.

 Þau skáru sig nokkuð úr fyrir mikla þjálni og hlýðni og það var gaman að sjá mýktina í vinnunni hjá Dot. Mac virkaði sem öruggari og harðari karakter
 Dot að ná kindunum til baka inní braut og að fyrsta hliði í þríhyrningnum.

 Þar sem ég verð ekki í keppninni á morgun( sunnudag) var Vaskur skilinn eftir heima. Hann hefði þó hugsanlega virkað í þessum rollum því árásargirnin hefur fengið að njóta sín hjá honum þegar þörf krefur, eftir því sem aldurinn færist yfir hann.

 Þær Dáð og Snilld fengu að spreyta sig í unghundunum en voru ekki nógu harðar til að halda stjórninni yfir þessum sunnlensku frekjudósum. Dáð á eftir að ná góðum tökum á þessum aðstæðum en  Snilld er aðeins meira spurningarmerki.

 Þetta var fínn dagur og gaman að rifja upp stemminguna á landsmóti en ég komst ekki í fyrra.

Flettingar í dag: 769
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 805902
Samtals gestir: 65278
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:10:16
clockhere