21.08.2009 21:49

Að breyta hvolpi í fjárhund er stundum löng leið.

 
  Ég var með stressaðra móti við að múga há á sunnudaginn, þegar ég var beðinn að kíkja á 5 mán hvolp svona uppá grín!

  Hvolparnir hjá okkur í sveitinni eru nú aldir upp með ýmsum hætti, allt frá því að vera svona nokkurn veginn sjálfala og uppí það að agast eftir bókinni þar sem öllu klúðri er sleppt.

 Þeir sem gera þetta í alvöru gæta þess að halda verðandi fjárhundi sem mest frá búpeningi þar til farið er að temja hann.

 Þegar þeir eru orðnir nokkurra mán. er samt stundum prófað hvort áhuginn sé vaknaður með því að sleppa þeim í kindur. Ef áhuginn er kominn er gaman að spá í taktana hjá þeim, en þeir geta gefið mjög ákveðnar vísbendingar um framhaldið.

 Þrátt fyrir stressið féll ég umsvifalaust fyrir þessu, enda fátt skemmtilegra en spá í ótamda efnilega Border Collie hvolpa.

 Píla litla frá Háleggstöðum hafði trúlega aldrei séð kind áður og var því hin rólegasta meðan Vaskur sótti kindurnar.



 Pílu leist svo ekkert á þessi fyrirbrigði frekar en nokkrum skógræktarbændum sem ég þekki. Það risu á henni hárin og hún gelti að þeim. Það er reyndar meira en skógræktarbændurnir geta enda ekki allir hárprúðir.

 

  Þetta tók á og Píla var orðin móð í æsingnum þót lítið yrði úr hlaupunum í þetta sinn. Enginn áhugi kominn enn.
 Ég spái því nú samt að hún eigi eftir að verða liðtækur smalahundur áður en lýkur.

 Tveir mánuðir í viðbót og þá gæti eitthvað áhugavert verið að koma í ljós.

Og tveir mánuðir eru stuttur tími í uppeldi og tamningu góðs fjárhunds.emoticon

Flettingar í dag: 769
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 805902
Samtals gestir: 65278
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:10:16
clockhere