20.07.2009 17:39
Kirkjufellshringurinn riðinn.
Við vorum 10 úr Fjörulallagenginu sem mættum kl 20.30 í hesthúsahverfinu í Grundarfirði á laugardagskvöldið.
Þeir voru 5 Grundfirðingarnir sem tóku á móti okkur og einn bættist við síðar.
Veðrið var ekki slæmt,stafalogn og kvöldsólin átti eftir að fylgja okkur mestallan tímann.
Eftir að hafa leyft hrossunum að kljást, velta sér og slaka á, í nærliggjandi gerðum og náttúrulega fá sér einn lítinn öl var lagt á.
Hesthúsahverfið er skemmtilega staðsett og maður er kominn á topp reiðgötur um leið og sest er í hnakkinn hvort sem farið er í austur eða vestur ( kannski ekki alveg öruggur á áttunum).

Þarsem þetta var engin hraðferð var stoppað á öllum álitlegum stoppistöðum. Ásgeir fór náttúrulega beint í að skyggna hylinn undir fossinum.
Heimamenn gerðu lítið úr góðviðrinu, svona væri þetta alltaf þarna og þar sem þau þekktu öll býsna vel til sunnanfjalls var ekki hafður uppi neinn áróður um logndagana þeim megin.

Og þar sem gestirnir voru samansafn orðvarra prúðmenna spurði auðvitað enginn um, hvernig sunnan og suðaustanáttin væri þarna.

Móttöku og fararstjórinn var bara þokkalega ríðandi þó maður væri nú ekkert að hafa orð á því við hann. Sá brúni var þó ekki lagður, fyrr en í hlaðsprettinum í ferðalok og þá urðum við eftir.

Þetta var tímalaus ferð og þessi mynd segir nú kannski alla söguna um hvað var í gangi í blíðunni.
Fjörðurinn var spegilsléttur og þótt ótrúlegt væri var engin fluga að angra okkur í ferðinni.

Það urðu fagnaðarfundir með Dalsmynnis og Bergsbóndanum þrátt fyrir að hann hefði skilið betri helminginn eftir heima. Hún verður bara að mæta þegar farið verður í kringum Stöðina.
Bóndinn á Bergi hafði lagt á tvö fimm vetra og kom á móti okkur til að slást í hópinn. Þau eiga eftir að verða að einhverju nothæfu í höndunum á honum.
Það drýpur smjör af hverju strái sunnanfjalls en þar spretta ekki bjórkippur milli þúfna , eins og var raunin á næstsíðasta áningastaðnum. Þetta er samt eitthvað sem við ræktunarmennirnir þurfum að taka til gagngerðar athugunar sem fyrst.

Hér lítur Gústi yfir hópinn hinn ánægðasti með gang mála. Bjóruppskeran reyndist nokkuð góð þetta árið og Óli að taka við fararstjórninni.

Trúlega hafa ekki margir skondrað jafn oft, upp og niður og allt um kring í Kirkjufellinu og Óli á Mýrum.
Kvíabryggja blasti svo við og það var velt vöngum yfir því hvort hún yrði orðin að nokkurskonar víkingarnýlendu áður en lyki..

Já, menn urðu dálítið hugsandi yfir þessarri Kvíabryggjuumræðu.
Já, nú var ég farinn að heimta örnefnalýsingar svo við Óli tókum forystuna yfir Hálsvaðalinn.
Ég ætla samt að hlífa viðkvæmum lesendum síðunnar við, hvað liggur á bakvið nöfnin á Berhólnum og Reiðhólnum.

Hér erum við komnir hringinn og þessi hlið fellsins er mest notuð til uppgöngu. Það kitlaði grenjaskyttuna að heyra, að uppi á fellinu væri tófugreni sem ekki væri lagt í að eyða.
Þetta var alveg meiriháttar ferð sem endaði svo með alvöru kjötsúpu að hætti Gústafs í félagsheimili hestamanna á staðnum ásamt dálitlu framhaldsspjalli fram á kvöldið.
Takk fyrir okkur.

Nokkrar vel ritskoðaðar myndir í albúmi.
Skrifað af svanur