17.07.2009 21:59

Graddar og girðingar.


 Nú styttist óðfluga í að hann Sigur frá Hólabaki komi í sveitina til að bæta hrossastofninn.

Það lá fyrir að koma þyrfti upp hólfi fyrir kappann og komu nokkrir staðir til greina. Niðurstaðan var sú að hann yrði hjá mér, en til þess að það gengi yrði að girða upp tæpa km girðingu.

 Í annríki sumarsins var þetta nú ekki forgangsverkefni hjá mér og var málið farið að reyna verulega á taugar og magasýrur hrossaliðsins í Söðulsholti/ Hrossholti.

Þetta gerði það jafnframt óðfúst til að koma að verkinu af miklum krafti  sem það og gerði.

 Dagurinn var semsé tekinn í girðingarvinnu. Búið var að rífa þá gömlu og var því hægt að byrja á því eftir mjaltirnar að fara með tætara í girðingarstæðið.
 Þessi mynd sýnir sitt lítið af hverju. Umferðarþungann hér seinnipart föstudags. Hluta girðingarstæðis. Neglingargengið að negla upp net og neðsta streng og síðast en ekki síst óheyrilegan grasvöxtinn í úthaganum. Já það drýpur smjör af hverju strái í landnámi Þórðar Gnúpu heitins.

 Hér voru vanir menn á ferðinni og skipt niður verkum. Ég  dró út vír og net og stjórnaði strekkingu. Tveir komu staurunum niður hratt og örugglega. Meira að segja ég, gat ekki sett út á línuna þegar reynt var að  kíkja út hlykki á girðingunni.


  Síðan sáu tvö um neglinguna og trúlega munu strengir og blöðrur  ergja þau á morgun.



 Þetta skotgekk, þrátt fyrir að það væri eiginlega óvinnufært vegna veðurs en logn og sól gerði þetta
dálítið erfitt.
 Nú á eftir að skella rafstreng efst. setja streng  með einum skurði og búa til eitt hlið. Síðan mæta hryssurnar á sunnudag og höfðinginn sjálfur á mánudaginn.

 Eins og ég sagði tamningagenginu alltaf. - Ekkert mál.emoticon

 Svo er það Kirkjufellið annað kvöld.emoticon



Flettingar í dag: 1097
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806230
Samtals gestir: 65280
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:31:20
clockhere