19.05.2009 00:06

Allt syngjandi vitlaust í sveitinni.


  Rollurnar hafa fundið það á sér að fyrirvinnan yrði í lambamóttökunni um helgina, því nú fór allt á fullt.

  Þetta minnti mig á gömlu góðu dagana þegar alvöru fjárbú  var hér og fjör í sauðburðinum.
Það gekk á ýmsu og  gott að mín heittelskaða var nærtæk þegar greiða þurfti úr fótaflækjum, sækja framlöpp sem ekki skilaði sér o.sv.frv.


 Þar sem burðarstíudæmið gerði ekki ráð fyrir svona stórskotahríð yfirfylltist allt af nýbornum rollum en þetta slapp þó allt til. Það var síðan drifið í að marka og númera í dag og slatti settur út.



Það hefði verið fínt að eiga nokkrar svona að hætti Brjánslækjarbænda klárar í lambahrotuna.

  Þar sem n.áttin er í svona vorfíling þessa dagana er ekki verið að setja út nema það elsta . Það er rúmur þriðjungurinn óborinn og þetta hefur gengið býsna vel. Einlemburnar eru einni fleiri en þrílemburnar svo ekki verður kvartað yfir of lítilli frjósemi nema síður sé.

 Yngri bóndinn er allstaðar annarstaðar en heima hjá sér þessa annríkisdaga, ýmist að plægja, tæta eða sá bygginu, enda er orðið áliðið vors og allt að falla á tíma.


 Grænfóðrið bíður sáningar og áburðurinn bíður í stórsekkjunum eftir að komast á túnin. Sérstaklega þau sem eru að koma skítlaus inn í sumarið.

  Já það er sko nóg að gera.

Þó kaupið sé lágt og fari lækkandi. emoticon
Flettingar í dag: 517
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 248
Gestir í gær: 19
Samtals flettingar: 705468
Samtals gestir: 60669
Tölur uppfærðar: 15.1.2025 11:15:45
clockhere