06.05.2009 22:13
Hvít með loðnar tær!
Ég veit ekki hvor okkar, ég eða smiðurinn vorum ánægðari þegar hann tók saman í gær og yfirgaf svæðið í bili.
Það er búið að skipta um alla glugga í húsinu og endurnýja þakjárnið. Síðan verður það klætt utan í sumar og þar með verður öllu utanhússviðhaldi lokið a.m.k. næstu 30 +, árin. Pottþétt einhvers annars höfuðverkur en minn þegar þar að kemur.
Smiðurinn fer þó ekki langt því næsta verkefni bíður hans á Rauðkollstöðum þar sem skipta á um þakjárn og bæta við kvistherbergi . Félagi hans er að fara illa útúr flensunni þrátt fyrir góða umönnun Frúarinnar og er svo illa komið fyrir honum að hann fór til læknis í vikunni. Þá er ástandið alvarlegt.
Þessi sat svo fyrir utan eldhúsgluggann hjá mér rétt fyrir sex í morgun og leit íhugul á mig.
Hún lét sér fátt um finnast þó ég tæki af henni margar myndir og væri á hreyfingu í innan við tveggja m fjarlægð. Annaðhvort hefur hún fundið á sér að hjá mér væru allar rjúpur friðaðar, alltaf, eða einhver meiri ógn hefur steðjað að henni frá öðrum en mér.
Og nú styttist í að ég geti óskað ykkur til hamingju með alvöru ríkisstjórnina ykkar.

Skrifað af svanur