06.02.2009 09:14
Hestasjóið.
Fyrir margt löngu þegar afinn var ungur og sprækur taldi hann sig vera mikinn hestamann.
Enda má segja að nokkrum góðum árum ævinnar hafi hann eytt meira og minna í hnakknum.
Hann áttaði sig nú samt á því um síðir, að honum væri ýmislegt betur gefið, reyndar uppgötvaði hann það töluvert seinna en hans nánustu en betra er seint en aldrei.
Nú þegar norðanbeljandinn og grimmdarfrostið var farið að fara í pirrurnar þá bauð afastelpan í hestasjó.
Hún og amman renndu við á leiðinni úr skólanum og tóku afann með niður í Hestamiðstöð.
Á leiðinni var þeirri stuttu tíðrætt um að nú færi hún alein á bak. Aðspurð um hvað ætti að leggja á var fátt um svör og þegar taldir voru upp líklegir gæðingar var öllu játað samstundis. Þarna virtist öryggi heimildanna álíka og hjá afanum þegar sá gállinn er á honum. Á tímabili voru reyndar öll hross hjá þeirri stuttu, Gloría gamla, en það breytist nú hratt þessa mánuðina.
Nú er maður að verða klár í slaginn.
Hérna er pískurinn afi.
Hestakosturinn reyndist vera hann Glampi gamli, sem er mun meðfærilegri við þetta en í hrossarekstri, þar sem honum hefur stundum tekist að koma blóði rekstrarmanna á hreyfingu og aukið fjölbreytnina í orðavalinu.
Lokaðu svo á eftir mér mamma.
Hérna erum við að velta fyrir okkur að að fara hægatöltið.
Hérna er hún að veifa viðstöddum og afa og ömmu í Snartartungu líka
En þegar sú stutta fór að krefjast þessa að auka hraðann , sagði afinn gott og heimtaði kaffið sitt.
Já, það verður trúlega erfitt að halda dömunni frá hestasýkinni.
Skrifað af svanur