04.02.2009 22:33
Enginn bóndi nema hann berji sér.
Já lífið er ekki alltaf dans á rósum í búskapnum og þótt hann Steingrímur hafi ríkan skilning á erfiðri fjárhagsstöðu a.m.k. 40 % bænda og gefi undir fótinn með að létta okkur áburðarkaupin í vor, er samt sitthvað til að ergja okkur.
Eftir að hafa í mörg ár búið við tiltölulega áhyggjulaust líf hvað það varðar afsetningu nautgripa sem einhverra hluta vegna áttu erindi í sláturhús, brá svo við tiltölulega fljótt eftir andlát bankanna, að neyslan á nauta og kýrkjötinu snarminnkaði, nú eða afsetningin jókst.
Alla vega er aftur gengið í garð gamla biðlistadæmið og nú skráir maður gripi á biðlista og svo líða mánuðir þar til eitthvað gerist. Og það eru aftur endurvaktar grunsemdirnar um að þeir frekustu verði fyrstir (og ég verði síðastur.).
Þær geta verið áhyggjulausar blessaðar ef svo heldur sem horfir. Já enda eru þær það.
Það var svo um sama leiti og kvisast fór að Hraungerðisbóndinn væri á útopnu að stuðla að orkuframleiðslu, sem gæti í fyllingu tímans gert allt olíusull norður af landinu óþarft og kannski Össur í leiðinni, sem ákafur niðurgangur fór að herja á kúastofninn í Dalsmynni.
Þó kýrnar yrðu nú ekki fárveikar , minnkaði nytin umtalsvert og bændurnir voru ákaflega varir um sig í fjósinu og reyndu að komast hjá því eins og mögulegt var að lenda í hugsanlegri skotlínu ef .....
Sem betur fór voru kýrnar nokkuð tillitsamar með að létta ekki á sér í mjaltabásnum þó aldrei yrði komist hjá óhöppum og skafan og spúllinn alltaf höfð til taks.
Hér var lífið áhyggjulaust. Engin kreppa komin, hægðirnar hjá kúnum í góðu lagi og fylgi ríkisstjórnarinnar í hæstu hæðum.
Og þegar leitað var áfallahjálpar hjá dýralækninum lét hann sér fátt um finnast og taldi svona uppákomu hinn eðlilegast hlut, svona annað til þriðja hvert ár.
Enda hefur hann litla samúð fengið hjá mér í hrakförum flokksins hans undanfarið.
Já, Steingrímur ætlar allt að gera fyrir okkur bændurnar.
En ég er ekki frá því að hann muni fórna hvalnum fyrir stólinn sinn.
Skrifað af svanur