12.01.2009 09:03
Afadagarnir.
Leikskólinn í sveitinni er rekinn samhliða grunnskólanum og er opinn 4 daga í viku .
Afastelpan er því í tómarúmi á föstudögum, því allt er á fullu í hestamiðstöðinni þar sem foreldraómyndirnar eyða deginum.
Það er algjör meirihluti fyrir því innan fjölskyldunnar að afinn hafi ekkert þarfara að gera en stjana við litlu dömuna þennan dag. enda geri hann sjaldnast nokkuð af viti. Reyndar mætir amman úr kennslunni á hádegi. Þrátt fyrir þessar staðreyndir verður það að viðurkennast, að það sem af er vetri hefur kallræfillinn haft svo mikið að gera að þeir eru átakanlega fáir föstudagarnir sem hann hefur sinnt þessari skyldu sinni .
Það hefur hinsvegar fylgt afanum alla tíð að bæta sig um áramót. Þau eru nú að verða nokkuð mörg, enda er kallinn ekki nærri eins slæmur og hann var.
Föstudagurinn var því afadagur( fram á hádegi ) og þetta gekk vel hjá okkur afastelpunni.
Ákveðin var hún í fyrra og hefur heldur bætt í með það eins og annað. Nú duga engin undanbrögð við skipulagningu dagsins. Byrjað var á að sækja bókina með vonda drekann og kallinn með síða skeggið og farið ýtarlega yfir þær skelfingar.
Næst var bókin um geiturnar þrjár, sótt í bókakassann. Því miður hefur einhver vondur kall komist í þá bók síðan ég las hana fyrir börnin mín og nú er hún ekki um kjarnafjölskylduna lengur og á allan hátt hundleiðinleg. Myndirnar eru hinsvegar nothæfar svo þær eru notaðar utanum söguþráðinn sem er spunninn jafnóðum.
Nú var komin kaffipása hjá afanum og dótakassinn því dreginn fram. Afastelpan er vön að dunda sér ein, rétt eins og afinn í gamla daga. Og eins og hann, talar hún hástöfum við sjálfa sig en á einhverri mállýsku sem ég skil ekki. Afinn talar enn mikið við sjálfan sig, en það er ákaflega langt síðan hann hætti að gera það upphátt. Þar sem kölkunin ágerist hratt má þó búast við að hann taki þó fljótlega upp á því aftur, en það er þá annarra vandamál.
Það sveif engin kreppa yfir Dalsmynninu þennan föstudagsmorgun.
Skrifað af svanur