26.12.2008 20:50
Hestamiðstöðin. Nýjasta tækni og vísindi.
Þessa helgina er ég bústjóri hestamiðstöðvarinnar. Svo heppilega vill til að það er lítið verið að leggja á um helgar, svo ég slepp létt út úr þeim þætti rekstursins.
Þegar Einar var að byggja hestamiðstöðina upp, nýtti hann vel allan mannauðinn í grönnunum sem þekktu allt til gegningarvinnu og skítmoksturs og vissu hvað bar að varast í þeim málaflokkum. Meira að segja yfirsmiðurinn vissi nákvæmlega hvernig var að burðast um með fangið fullt af heyi.
Niðurstaðan var einföld og látlaus bæði í skítmokstri og gegningarvinnunni.
Sjefferinn kemur með rúlluna inn og sker hana á vagninn. Hann er laufléttur í gjöfinni svo meir að segja ég fer létt með hann um húsið.
Aðstaðan fyrir hey og hálm er í enda reiðhallarinnar og vagnarnar koma beint hér inn á ganginn.
Það var að sjálfsögðu skilyrt við helgarráðninguna að hálmun yrði nýlokið og myndi duga um helgina.
Kjarnfóðurvagninn er hrein snilld og bygghólfið er til marks um hvaða fóður virkar best fyrir þau hross sem eru í stífri þjálfun. Áfram Ísland.
Já, já, Einar minn, ég endaði náttúrulega á því að sópa.
Allir vagnarnir voru smíðaðir af yngri bóndanum í Dalsmynni og hönnunin, já það má nú deila um það hversu stóran hlut sá eldri á í henni. En sem sagt , einfalt, sparneytið, þægilegt og viðhaldið á græjunum vigtar lítið ennþá.
Nú er bara að vona að rigni eldi og brennisteini á morgun, svo ekki þurfi að setja allt út í gerði.