07.12.2008 00:16
Aðventukvöld.
Það var vel mætt á hið árlega Aðventukvöld sem að þessu sinni var haldið í Lindartungu í umsjá sóknarnefndar Kolbeinstaðarsóknar.
Og hafi einhverjir borið kvíða í sinni vegna kreppunnar, hvarf hann sem dögg fyrir sólu .þegar séra Guðjón sem er að mæta til starfa eftir löng og erfið veikindi, fullvissaði okkur um að hann og umbjóðandi hans myndu beita sér fyrir því að margumrædd kreppa myndi allavega sneyða framhjá öllum bæjum í hans sóknum.

Börnin í kór Laugargerðisskóla sungu eins og englar en þetta eru vonandi eðlileg börn og eru kannski ekki alltaf eins og englar þess á milli.

Kirkjukórinn okkar söng svo af mikilli innlifun og kom okkur í endanlega jólaskapið.

Hafi svo vantað uppá réttu stemminguna hjá einhverjum, var Diddú mætt á svæðið og fór á kostum eins og henni einni er lagið.

Já það var greinilega eitthvað í gangi.

Og jólasveinninn var mættur og hlustaði líka á Diddú.

Þegar að söngveislunni lauk tók við mikil kökuveisla sem var mikil og góð æfing fyrir komandi jólavertíð.
Ég vil svo þakka margar góðar kveðjur til mín og heimasíðunnar minnar.
Þær eiga eftir að hressa við egóið hjá mér þegar ég sit við tölvuna með ljóðlínur snillingsins frá Skáholti í kollinum.
Ég sit hér einn, með sjálfstraustið mitt veika. o.sv. frv.

Skrifað af svanur