02.12.2008 19:38

Í tómu tjóni.




  Það er í kringum burðinn sem íslenska landnámskýrin er í sérstökum áhættuflokki. Ekki er ólíklegt að það gildi líka um ákaflega fjarskylda ættingja hennar á meginlandinu.

  Það eru ótal krankleikar sem dúkka upp, doðaslen getur komið fram hjá ólíklegustu gripum, og ef júgurbólgan hefur komið fram áður er ekki óliklegt að hún endurvekjist. Fastar hildir þekkjast og í framhaldinu  getur síðan súrdoðinn gert vart við sig ef hann er á annað borð undirliggjandi í fjósinu.
  Þegar hún Emilía bar, kom fljótt  í ljós að eitthvað var öðruvísi en það átti að vera. Hún var greinilega ekki með sjálfri sér,  köld á eyrunum og slappleg. Þetta voru doðaeinkenni og var umsvifalaust brugðist við því.


                Emilía var í góðum málum  þegar hún hélt út í sumarið, í vor.

  Þegar sú meðferð bar engan árangur leist gamla bóndanum illa á málið. Lystarlaus, hálfköld á eyrunum og leið greinilega illa. Svo illa leist honum á þetta að Rúnar var ræstur út á sunnudegi til að kíkja á gripinn. Aldrei þessu vant sagði hann fátt, meðhöndlaði kúna, og skyldi eftir lyf fyrir framhaldið. Þau höfðu engin áhrif. Enn kom Rúnar hlustaði og bankaði, skoðaði skítinn og sagði enn minna. Í þriðju heimsókninni kvað hann upp þann úrskurð að trúlega væri um stíflu í meltingarvegi að ræða og batahorfur ekki miklar enda verulega af kúnni dregið á þessum 5 dögum.

  Og þó það væri kominn hörkuvetur á föstudaginn var enn hægt að taka gröfina fyrir hana.

 Þó Emilía hefði nú alltaf haldið sig neðan við búsmeðaltalið í framleiðslunni verður kvígan sem hún skyldi eftir væntanlega sett á. Það er eitt af vandamálunum í þessari " markvissu " ræktun hér, að ekki er hægt að grisja kvígustofninn eins og vert væri, því endurnýjunarþörfin er svo mikil.

  Það er þó hægt að hugga sig við að liturinn er fínn.

        
  
 

 
Flettingar í dag: 1097
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806230
Samtals gestir: 65280
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:31:20
clockhere