06.11.2008 19:20
Haus- eða ekki haus??
Það er enginn haus, sagði yngri bóndinn spekingslegur á svipinn.
Við stóðum yfir kú með kálfssóttina og fæturnir sem sáust, virtust vera hinir eðlilegustu framfætur og þetta væri allt í sómanum. Við nánari athugun reyndist þó rétt að enginn haus fylgdi þessum löppum , enda voru þarna afturfætur á ferðinni og kálfurinn greinilega alveg á hvolfi.
Þar sem eldri húsmóðirin sér um fæðingarhjálpina var hún umsvifalaust ræst út, til að stjórna aðgerðum. Hennar sérsvið liggur að vísu í sauðfénu þar sem hún fremur hin ótrúlegustu kraftaverk en þetta er nú allt sama tóbakið, eða þannig.
Þegar til átti að taka kom upp ágreiningur um hvernig staðið skyldi að því að snúa kálfinum.
Tillagan um að toga og snúa um leið, var ekki keypt og aldursforsetinn kvað uppúr með að hér yrði ekkert gert fyrr en Rúnar dýralæknir væri kominn í hinn endann á símanum.
Hann var eldsnöggur að átta sig á málinu og kvað umsvifalaust upp með það, að löppunum yrði ýtt til baka eins og hægt væri, kálfinum snúið og svo afturábak út með hann.
Tíu mínútum seinna var svo eldsprækur nautkálfur kominn í heiminn. Þetta ætlar að verða nautkálfaár í ár, þarsem meiripartur kálfanna er naut. Í fyrra var það á hinn veginn.
Þar sem ég læt ekkert tækifæri ónotað að bögga þann yngri með þessum kúastofni sem ég er neyddur til að búa við, benti ég honum á að sú nýborna væri hvort sem er með ótækt júgur og spenalag til að nota til undaneldis. Ég sleppti því þó að bæta við, að það ætti nú reyndar við flestar kýrnar á skerinu, okkar og annarra.
Uss suss suss, best að hætta sér ekki í þessa umræðu.
Skrifað af svanur