01.10.2008 18:08
Rollur/bygg!
Já það er allt albrjálað að gera sem aldrei fyrr. Annarsvegar þreskingin sem er á útopnu og þrátt fyrir að akrarnir séu dálítið mikið meyrir fljóta Sampóinn og Atli um þá á lýginni og hvítagullið
( byggið) streymir inn í þurrkstöðina.

Þetta er gott bygg, vel þroskað og er um 74 % þurrefni við þreskingu sem er fínt. Með þessu þurrefni er þurrkarinn að afkasta um 18 tonnum á sólarhring. Það segir þó lítið þegar allir eru í stuði og því er farið að keyra byggið inná kæligólf þar sem hægt er að halda því fersku fram að þurrkun. Blásið er undir það í stuttan tíma einu sinni til tvisvar á sólarhring .
.

Þetta er sama kerfið og súgþurrkunin í gamla daga.

Loftstokkar undir gólfinu og fínar ristar á loftgötunum ( eins og niðurföll) sem halda bygginu og hægt er að keyra á.
Hitt puðið þessa dagana eru smalamennskurnar en önnur rétt er á laugardaginn. Þá verðum við að hafa lokið annarri leit í Hafursfellinu og fyrstu leit hér heima en þetta svæði er það eina af fjalllendi sveitarinnar sem ekki er smalað til réttarinnar. Þetta er 3 daga dæmi og þar sem aðalhlaupagikkurinn ( fyrir utan Hyrjar) situr hátíðlegur á svipinn í þreskivélinni allan daginn verður lífið dálítið erfitt.

Hundarnir raða sér upp við innreksturinn.
Nú kemur sér vel að eiga þokkalega hunda og dóttur/tengdason í sveitinni ( í þessari röð). Og dieselpramminn ( fjórhjólið ) er að standa sig hvað sem aðalbóndinn segir.
Og þetta smalagengi stóð sig alveg rosalega vel í dag .

Skrifað af svanur