11.09.2008 21:01
Eins mig fýsir alltaf þó.
Við sem sem drögum andann léttar um leið og komið er upp fyrir ákveðna hæðarlínu, verður því oftar litið til fjalls, sem styttist í smalamennskurnar.
Þó verkefnalistinn sé úr öllu hófi reynir maður að stela sér tíma til að hreyfa smalaklárinn aðeins, og hundarnir eru alveg í fantaformi. Smalamennskan sem áformuð var um helgina dregst samt fram í næstu viku því það var fallið á tíma með ýmislegt.
Hér eru í raun smöluð heimalönd bæjanna þar sem jarðirnar ná yfirleitt eins og vötnum hallar á fjallgarðinum. Við Dalsmynningar smölum því okkar land og sjáum um tvær leitir á næstu 4 jörðum fyrir vestan okkur en þær eru allar fjárlausar. Þessar jarðir eiga Hafursfellið( mismikið) og landið kringum það. Hér er um stuttar leitir að ræða 6- 8 tímar eftir því hvað austurbakkarollurnar taka mikinn tíma í sértækum kennslustundum.
Það er síðan á laugardaginn 20 sept. sem aðalleitin í sveitinni fer fram, en þá er smalaður austurhluti sveitarinnar til Þverárréttar, sem haldin er á sunnudeginum.
Sú smölun og réttarhald snýst nánast alfarið um utansveitarfé sem ýmist er upprekstur fyrir í sveitinni eða það kemur sér sjálft í þessa gósenhaga sauðkindarinnar hvar drýpur smjör af öðruhvoru strái.
Í framhaldinu munum við fjöruriddararnir svo halda vel hestaðir í Skagafjörð en þar er stefnt að smölun, réttarhaldi og síðan stóðrekstri til eins hrossabóndans að lokinni Laufskálarétt.Og þá er eins gott fyrir Skagfirðinga að hafa almennilegt veður.
Það er sko ekkert svartnætti framundan þrátt fyrir annríkið ( og afurðaverðið.)