12.07.2008 22:38
Rigningin og kýrnar..
Kýrnar urðu nú ekki svona glaðar þegar fór að rigna en myndin er kannski táknræn fyrir bændurnar.
Já það fór loksins að rigna og allir urðu glaðir nema ferðamennirnir. Ég stóð og horfði
á rýgresisakurinn og mér sýndist ég sjá stráin lengjast. Reyndar fannst mér dálítið svindl að vinir mínir( hinir líka) á austurlandi, sem ég held að séu farnir að bíða eftir þurrki skyldu líka fá rigningu en það er svo ótalmargt sem ég skil ekki í veðurfræðinni.
Nú er búið/verið að gelda upp kýrnar sem eiga að bera í sept. og fyrst í okt. og gengur misjafnlega. Það er svo byrjað að venja þær við rýgresið sem hefur sprottið hratt síðustu dagana þrátt fyrir þurrkinn. Rýgresið er ekki randbeitt heldur skipt niður í hólf sem duga þeim í nokkra daga í senn. Yfirleitt 6 hólf og þegar sprettan er örust hafa þær ekki við . Reyndar standa þær alltaf í heyi yfir nóttina og þegar rignir munu þær ekki stoppa lengi úti ef ég þekki þær rétt.
Hvað skyldi svo verða búið að rigna í marga daga þegar farið verður að kvarta yfir óþurrkunum??