29.05.2008 23:38
Varnarlína. Taka 3.
Hér horfum við upp Einbúabrekkuna og girðingin orðin snjólaus, sem kom skemmtilega á óvart. Ofan við brúnina má segja að eyðimörkin taki við ef mosagrónir og síðan gróðurlausir melar og sandar flokkast undir það. Efst í brekkunni er girðingin lausnegld þannig að lykkjurnar dragast út þegar skaflinn sígur og þar bíða strengirnir heilir og lykkjurnar við staurinn þegar mætt er á vorin. Fyrstu tvö árin mín var það mikill saumaskapur að koma slitrunum saman og útkoman frekar óhrjáleg en núna er þetta allt annað líf og þegar ég kom að þessu í dag ákvað ég að geyma til næsta árs að strekkja þetta upp. Í þessu girðingarviðhaldi eru slíkar ákvarðanir óhugnanlega algengar. Það má segja að frá Einbúabrekkunni og innúr sé ástandið á girðingunni farið að daprast verulega þó nokkrir kafla séu nýlegir. Vegna sandroks/veðurhæðar endist galvanhúðin á vírnum bara í nokkur ár og síða ryðgar vírinn niður á nokkrum árum. Í hvert skipti sem ég fer þarna um í fyrstu vorferð er ég ákveðinn í því að fara nú að hætta svo einhver sprækari geti vaðið í að girða þetta upp. Þetta var að sjálfsögðu ákveðið í dag. Girðingin var þó ekki eins illa farin og búist var við þó dálítið þyrfti að negla upp og bæta. Þessi snjór sem kom í vetur var laus í sér ,kom ekki í stórviðrum og það virðist minnka álagið á girðinguna þegar hann sígur. Við komumst þó ekki nema uppfyrir " Krosspýtu" en þarna uppi var talsverð aurbleyta. Inná sandi var girðingin að hluta undir snjó og það sem upp var komið mikið slitið niður enda illviðrasamt þarna uppi. Girðingin þarna er þó síðan í fyrra og dapurlegt að sjá hvernig komið var fyrir henni. Það verður síðan tekinn dagur í það eftir 2-3 vikur að loka þessu.
Maður er síðan alltaf jafnundrandi á því að koma fjórhjólunum til byggða með heil dekk því slóðinn þarna upp er virkilega leiðinlegur á köflum, urðir og eggjagrjót.
Fyrir áhugamenn um girðingar og landslag eru nokkrar myndir á albúmi.
Ve
Skrifað af svanur