28.05.2008 23:36
Varnarlína. Dagur tvö.
Það eru alltaf hálfgerð ónot í manni þegar þar er komið í viðhaldinu á varnarlínunni á sunnanverðu nesinu að kíkt er á girðinguna yfir Laxána. Þó þetta sem sést hér að ofan sé ekki glæsilegt er þetta þó með skárra móti. Í gær var farið með girðingunni frá þjóðvegi að Skógarnesvegi og í dag frá þvóðvegi að Laxá. Fyrst þegar ég byrjaði í þessu bölvaði ég gaddavírnum mikið. Ég er löngu hættur því og ekki ólíklegt að gaddavírsgirðingar muni sjást í Dalsmynni þar sem alvöru girðing á að setjast upp.
Ég hef hinsvegar lært það að girðingahanskar og girðingahanskar geta verið tveir gjörólikir hlutir. Og þegar ég býð út efni í girðingu læt ég alla bjóða , öll merki, .þó ég viti nákvæmlega hvaða gaddavírstegund og vírlykkjutegund verði keypt. Sem betur fer vita sölumennirnir það ekki og samkeppnin er hörð. Og ríkið græðir. Þó þetta sé þræladjobb er eitthvað sem heldur í mann .
Kannski svona dagur ,þar sem allt er að lifna í fjallinu og skyrtuveður inn með hlíðinni. Ástandið á girðingunni var nokkuð gott á þessu svæði og notalegt að dóla á fjórhjólinu meðfram þessum köflum sem girtir hafa verið upp síðustu árin, hinir voru ekki svo slæmir þó þar sé einn ,nokkur hundruð metra kafli sem þyrfti að girðast upp í sumar.
Já það er kominn gróður og nú geta Kata og Siggi farið að reka úr túninu.