17.05.2008 04:45
Vorblíðan og byggið.
Síðast þegar ég lofsöng veðrið brá svo við að komið var alvitlaust veður daginn eftir og næstu daga. Ég hef því ekki þorað að minnast á, að hér er búið að vera meiriháttar vorveður í marga daga og sér ekki fyrir endann á því. Í þessum skrifuðu orðum er lítils háttar rigning og lambféð sem út er komið var kuldalegt áðan, þó mér fyndist því engin vorkunn, enda hitinn um átta stig. Eitt gemlingslambið hafði trúlega legið eftir þegar hópurinn hafði fært sig um set og bar sig aumlega svo jarmurinn heyrðist heim að bæ í vorkyrrðinni, aleitt í þessum stóra hráslagalega heimi. Eftir að því var kippt í liðinn hljóðnaði allur jarmur utanhúss, fuglasöngurinn ekki. Byggsáningunni þokar vel áfram þessa dagana þó betur megi ef duga skal. Lokið er sáningu í Hrossholti, Þverá, Dalsmynni og Kolviðarnesi en eftir að ljúka seinni umferð í Söðulsholti og á Rauðkollstöðum. Tvær spildur í Hrútsholti sem Dalsmynni sf. er að endurrækta eru einnig eftir en annarri verður lokað með grasfræi ásamt byggi. Nú er bara að vona að hlýindin haldist, byggið nái sér fljótt á strik og uppskern líði ekki fyrir hversu seint er sáð.
Það sér allavega fyrir endann á byggdæminu en þá er eftir að sá grænfóðrinu hér á bæ, en það hefur setið á hakanum í þessum barningi. Sáð verður rýgresi í um 6 ha. bæði til beitar og sláttar. Já og svo fer tími áburðardreifingar að renna upp.
Og olíuverðið alltaf á uppleið.
Það sér allavega fyrir endann á byggdæminu en þá er eftir að sá grænfóðrinu hér á bæ, en það hefur setið á hakanum í þessum barningi. Sáð verður rýgresi í um 6 ha. bæði til beitar og sláttar. Já og svo fer tími áburðardreifingar að renna upp.
Og olíuverðið alltaf á uppleið.

Skrifað af svanur