16.05.2008 06:27
Lambfé út.
Já, fyrstu lambærnar fóru út í gær. Það var ekki vegna gróðurleysis eða veðurfars að það gerðist ekki fyrr, heldur er sólarhringurinn einfaldlega alltof stuttur til að koma hlutunum í framkvæmd. Árleg klaufsnyrting er gerð um leið og ærnar fara út og þó það sé einfalt mál að snyrta klaufirnar með dúkahnífnum eftir að við fórum að hafa féð á taði/hálmi er alltaf jafn önugt að þurfa að velta þessum flykkjum fram og til baka, sérstaklega þegar menn þykjast vera tæpir í bakinu. Þær biðu hinsvegar ekki boðanna og létu sig hverfa niður fyrir þjóðveg áður en húsbóndinn og hundarnir voru búnir að setja sig í stellingar til að fylgja þeim yfir veginn. Það er ekki alltaf einfalt mál með blikkdósirnar á 110 km hraða og ökumenn undir stýri sem í alltof mörgum tilvikum bera enga virðingu fyrir sauðkindinni og litlu lömbunum sem eru stundum vís með að taka til fótanna beint á bílana. Þar sem bæði stóru hliðin voru opin vegna mikillar dráttarvélaumferðar var leiðin greið í þetta sinn og þær höfðu sloppið niðurfyrir án vanhalda. Þar munu þær síðan halda til næstu 3-4 vikurnar en þá verður fjallið tilbúið fyrir þær með öllum sínum unaðssemdum. Gróðurinn er kominn svo vel á veg að trúlega þýðir ekki að setja heyrúllu niðurfyrir. Hún yrði einfaldlega látin óétin. Sauðburðurinn er enn í lága gírnum. Gemlingarnir eru þó flestir bornir og um 10 urðu tvílemdir sem er ekki gott. Nokkrir þeirra munu fá/verða að ganga með báðum lömbunum í sumar enda eru þeir óvanalega stórir og þroskamiklir þetta árið og erfitt um vik að venja undan þeim, því það er líka dálítið um þrílembur í eldri hópnum.
Það er svo náttúrulega afar slæmt vandamál á sauðfjárbúi, ef ekki finnst tími til að setja féð út á grænu grösin. Eins gott að það vandamál leysist fyrir haustið.
Það er svo náttúrulega afar slæmt vandamál á sauðfjárbúi, ef ekki finnst tími til að setja féð út á grænu grösin. Eins gott að það vandamál leysist fyrir haustið.

Skrifað af svanur