05.05.2008 00:02
Rigningin er góð.
Það rigndi vel seinnipartinn í dag. Til að byrja með var þetta kalsarigning en svo hlýnaði og þetta var orðin ekta vorrigning áður en lauk,. Hér hefur ekki rignt í háa herrans tíð og allt orðið skrælþurrt. Nýræktirnar urðu hreinlega hvanngrænar fyrir augunum á manni og allt breyttist.. Meira að segja fuglarnir virtust breyta um tóntegund en ég hætti mér nú ekki útí að lýsa því nánar. Það var rokhvasst fyrripart dags svo ekki var hægt að sanda eins og til stóð. Í stað þess var farið í að dreifa taði og og taðhálmi úr haugum. Dreift var á tún sem plægð verð upp og sáð í rýgresi í sumar. Eftir kvöldmat var komið logn og þá var dreift nokkrum dreifurum af skeljasandi til að sjá hvernig Samsoninn virkaði. Það verður að segjast að þessi græja þeirra stórvina minna á Austurbakkanum er hrein snilld í skeljasandinn og taðið .Afköstin eru mögnuð og dreifingin á sandinum góð. Ef slá ætti túnin hefði ég viljað sjá fínni vinnslu á skítnum en þetta var gott í plæginguna. Atli náði að klára plæginguna í Dölunum svo nú hefst byggsáningin á morgun. Ekkert atvinnuleysi hrjáir því sveitavarginn þessa vordaga og stutt í stressið ef eitthvað fer úrskeiðis.

Skrifað af svanur