02.05.2008 09:53

Fundafíklar og sauðburður.

 Á ákveðnu tímaskeiði ævinnar  trúði ég því að öruggast væri að ég hefði puttann á öllu mögulegu og ómögulegu sem var í gangi í samfélaginu. Það skrýtna var að að fleiri voru þeirrar skoðunar og ég var því kosinn í flestallar nefndir og ráð sem fyrirfundust í bændasamfélaginu. Það fór þó svo að ég áttaði mig á því að enginn  er ómissandi og allra síst ég. Þetta uppgötvaðist nokkuð samhliða minnkandi áhuga á tíðum fundarsetum á oft tilgangslitlum fundum. Eftir á að hyggja var ótrúlegt að ég skyldi uppgötva þessar staðreyndir á undan kjósendunum og hætta því vafstrinu í tíma.
  Það fór samt ekki hjá því að ég hefði skoðanir á ýmsum málaflokkum sem stóðu mér nærri og stundum (sjaldan) stóð ég mig að því að reyna að hafa áhrif á ýmsa hluti sem ekki voru í rétta farveginum frá mínu sjónarhorni. En allt fer í hringi og í þessari viku hef ég setið 3 fundi og sá fjórði frestaðist af ókunnum orsökum. Þýðingarmesti fundurinn var lokafundur samninganefndar um rekstur Laugargerðisskóla sem rekinn er af Borgarbyggð og Eyja og Miklaholtshrepp. Samningsdrögin sem samstaða var um í nefndinni og lögð verða fyrir sveitarstjórnirnar, þýða jákvætt og öruggt rekstrarumhverfi fyrir skólann okkar þar til börnin þrjóta á svæðinu. Annar hvor aðilinn getur þó á hverjum tíma óska endurskoðunar ef aðstæður breytast.

  Fyrsta lamb vorsins leit svo dagsins ljós í morgun nokkrum dögum fyrir tímann.
Móðirin sem er önnur kindanna á búinu sem glímir við kviðslit kom reyndar með annað sem var andvana fætt.  Sauðburðurinn í Dalsmynni er sem sagt á fullu og lítur illa út ef ekki lifir nema helmingurinn af lömbunum(enginn bóndi nema hann berji sér).
Flettingar í dag: 1097
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806230
Samtals gestir: 65280
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:31:20
clockhere