06.04.2008 23:27

Rolludagur.

 Mín heittelskaða verður að vinna við kennslu 5 daga vikunnar til þess að standa straum af heimili og manni sem verður sífellt þyngri í rekstri.(Stærri bílar og eldra Whiskí.)
Þar sem hún treystir okkur hinum bændunum illa, ef sauðféð er annarsvegar, verður því að gera fleira en gott þykir um helgar þegar mikið stendur til og þarf að vanda sig. Dagurinn (hluti hans) var því tekinn í að bólusetja féð og gefa því ormalyf . Þetta er að vísu létt verk og löðurmannlegt þegar bústofninn er ekki stærri en þetta og ólíkt skemmtilegra en ýmislegt annað sem lagt er á mann í rolluharkinu. Heyin hefðu mátt vera aðeins minni að gæðum síðustu tvo mánuðina því ærnar eru orðnar fullmiklar um sig og þungar á sér núna, þegar þær þyrftu  aðeins að fara að bæta á sig fyrir burðinn.
 Nú er svo verið að plana hvenær stefnt skuli að dreifingu búfjáráburðarins sem á að nýta vel í ár vegna áburðarverðsins og það styttist óðfluga í akuryrkjuna og önnur vorverk enda vorblíðan í dag kærkomin eftir norðan belginginn undanfarið.
 Og það þyrfti að taka 10 daga törn í hundamálunum áður en tekið verður tveggja mánaða frí í þeim málaflokk.
Flettingar í dag: 1097
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806230
Samtals gestir: 65280
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:31:20
clockhere