31.03.2008 21:46

Stóri Langidalur og víkingasveitin.

  Þar kom að því að austurbakkamenn brettu upp ermarnar og gerðu áhlaup í/á Langadalinn.  Það var enginn annar en refaskyttan og snillingurinn hann Sveinbjörn á Hlíð sem skipulagði verkið og stjórnaði aðgerðum. Hann hefur eins og ég, haft pínulítinn grun um að kannski væri dalurinn ekki alveg fjárlaus, enda vandaði hann valið þegar kom að liðsaflanum. Fjórhjóladeildina skipuðu þeir Ásberg í Hraunholtum og Jakob í Mýrdal. Síðan tók hann í liðið Albert á Heggstöðum til að gulltryggja að skynsemin myndi nú ráða við endanlega skipulagningu og ekkert klúður yrði í leitinni.
 Engum sögum fer af hundakosti þeirra félaga enda greinilega valið í fjórhjóladeildina með það í huga að ef yfirgefa þyrfti hjólin vegna brattlendis myndu smalarnir léttilega hafa í öllu tré við fálurnar ef einhverjar fyndust. Vandamálið við framhaldið er það, að þegar skipulagningin er í lagi og vel að verki staðið er ekkert skemmtilegt til að segja frá, nema þarna náðust 14 kindur og ekki seinna vænna því nú fer að grænka þarna í hlíðunum hvað líður.Ein þessar kinda var að ljúka sínum öðrum vetri í útilegu.
 Og gimbrin sem ég heimti þarna mun væntanlega eiga eftir ca. mánuð í burð.

   Að öllum líkindum verður Stóri Langidalur nú fjárlaus í alvöru í nokkrar vikur svo byrjar nýr rolluhringur með tilheyrandi vetrarsmalamennskum.
 
Flettingar í dag: 808
Gestir í dag: 56
Flettingar í gær: 898
Gestir í gær: 46
Samtals flettingar: 831871
Samtals gestir: 66122
Tölur uppfærðar: 16.4.2025 18:59:33
clockhere