24.03.2008 21:16

Páskar, Porche og Lada Sport.

  Þá eru páskarnir að baki og heldur bæst við massann á bóndanum sem eflaust kemur sér vel á erfiðu vori sem er alveg að bresta á. Og bara ekkert hægt að kvarta undan veðrinu þó aðeins sé farið að kólna aftur  í augnablikinu. Það var svo einstaklega ánægjulegt að taka hér á móti Skrámi í dag en hann yfirgaf þennan sælureit  fyrir cirka 3,5 árum +. Ég sá ekki betur en hann væri líka hæstánægður en það hefur nú kannski verið léttirinn að sleppa úr búrinu eftir fjögurra tíma ferðalag.
  Í augnabliks aðgæsluleysi sleppti ég honum í þvottahúsið og 15 mín. seinna kom á daginn að hann hafði gengið mjög rösklega í það að merkja sér rækilega þennan endurheimta íverustað sinn þar sem hann eyddi fyrstu mán. ævinnar. Sem betur fer hefur dóttirin trúlega einhverntímann sagt sambýlismanninum hvað gerðist ef ég sleppti mér gjörsamlega, því hann fór umyrðalaust að reyna að skúra upp mestu merkingarnar enda málið skylt. Nú þarf síðan að gæta þess vandlega að Asi sleppi ekki inn í þvottahúsið næstu dagana því trúlega myndi hann ganga jafn rösklega í að yfirmerkja merkingarnar og bróðir hans. Ég er svo hundfúll út í eiganda Skráms að hafa ekki lagt vinnu í að temja hann betur, því þetta var snillingsefni. Mér finnst þetta svipað og eiga nýjan  Porche, setja hann bakvið hús og þegar hann er notaður einu sinni í mán. þá er ekki ekið hraðar en á 40.  Til að fyrirbyggja allan misskilning er rétt að taka fram að söluverðið á hvolpinum var ekki Porcheverð heldur svona Lödu Sport verð. Það er dálítið önugt fyrir þá sem eru virkilega að vanda sig við ræktunina á Border Colliernum að ef farið er uppfyrir Lödu prísinn snarminnkar eftirspurnin. Og Jói minn vertu alveg rólegur, ég ætla ekkert að minnast á hana Fiðlu.
  Já svo er stefnt að því að klaufsnyrta kúahjörðina á morgun, ekki verður það skárra heldur en rúningurinn.
Flettingar í dag: 769
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 805902
Samtals gestir: 65278
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:10:16
clockhere