07.03.2008 23:19

Nautaat og erfiður afadagur.

   Yngri bóndinn leit inn um leið og hann lagði af stað  Borgó til að fræða mig á því að kálfahópur væri sloppinn útúr gamla fjósinu og hann yrði að vera kominn í Nesið innan 31 mínútu. Það var afadagur í dag og við Kolbrún Katla rétt búin að koma okkur fyrir  í sófanum með bunka af gagnmerkum bókmenntum til skoðunar.
 Skýringin á kálfaútrásinni var sú að gleymst hafi að loka stíu við tilfærslu á grip um morguninn og opið inn í hlöðu og síðan út, enda bongóblíða í sveitinni. Eins og allir vita sem lent hafa í því að koma dýróðum kálfum inní hús voru þetta váleg tíðindi og allur bókmenntaáhugi rokinn út í veður og vind. Eftir að hafa fengið sér bleksterkt kaffi og horft á kálfana leika sér umhverfis útihúsin í smástund klæddum við (ég )  okkur Kötlu í gallana.
 Ég horfði lengi á hundaflotann á bænum og afréð síðan að láta Vask duga í fyrstu tilraun. Eins og allir vita sem komið hafa nálægt því að reka inn búpening verða allir almennilegir bændur að umskiptingum við það og fljótir að finna sökudólgana ef illa gengur. Ég taldi því rétt að hafa Vask einan, vitandi það að hann er öllu vanur og heyrir illa þegar húsbóndinn fer að hækka röddina. Við Katla ákváðum síðan að fara á fjórhjólinu áleiðis til öryggis því afinn með afbrigðum latur að hlaupa ekki síst með dótturdóttirina á handleggnum. Þegar við nálguðumst hópinn sem samanstóð af kvígum eins til tveggja ára  leit ég rannsakandi eftir einkennum þess hvort þarna væru einhver kexrugluð með.
 Mér sýndist a.m.k ein hafa sama augnaráð og margreyndur forsetaframbjóðandi og þótti það verra. Eftir að hafa horfst í augu smástund tók hjörðin sprett uppfyrir hús og var Vaskur umsvifalaust sendur á eftir. Um suma hluti þurfum við Vaskur ekki að hafa mörg orð og var hann fljótur að átta sig á því að nú var allt leyfilegt. Kvígan sem hjólaði í hann var líka fljót að átta sig á hlutunum. Þegar hópurinn kom að húsinu aftur var sú með frambjóðendaaugnaráðið sem betur fer inní hópnum og þegar sú fyrsta skellti sér inní hlöðuna var málið dautt. Þegar þessu var lokið og ég renndi hjólinu ínn í bílskúrinn/hundahúsið feginn málalokum rak sú litla upp mikið gleðióp. Hún hafði komið auga á snjóþotuna sína en einhverjar misvitrar konur höfðu komið henni upp á það að draga hana fram og aftur um landareignina á henni. Já ég fékk svo að svitna eftir allt saman.
Flettingar í dag: 382
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 3095
Gestir í gær: 75
Samtals flettingar: 808610
Samtals gestir: 65366
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 09:12:14
clockhere