26.02.2008 23:13
Að líta um öxl.
Já það var haldið námskeið í reiðmennsku um helgina í Söðulsholti. Meðal þess sem Maggi Lár fór yfir var það sem félagi minn kallaði skíðahreyfinguna. Ef höfði og öxlum er snúið t.d. til hægri þá beygja skíðin/hrossin til hægri o.sv.frv. Þetta gekk vel þar til kom að einum nemandanna þá bauð hreyfigetan illa upp á snúninginn og þegar Magnús jók brýninguna byrjaði að braka í öllu. Við félagarnir kunnum óðara skýringuna á þessu, því viðkomandi er mikill ferðagarpur á hrossum og er búinn að flengjast um landið þvert og endilangt í hrossaferðum. í þessum ferðum er hann jafnan fremstur í forreiðinni og markast ferðahraðinn af því hversu vel ríðandi hann er. Hann hefur það fyrir grundvallareglu að líta aldrei um öxl og þegar vandræði verða í eftirreiðinni sem kemur oft fyrir bætir hann í ferðina frekar en hitt.Séu veruleg vandræði í uppsiglingu og ámátleg neyðaróp rekstrarmanna gerast úr hófi hávær herðir hann reiðina sem mest hann má, þar til hann stoppar í áætluðum áningarstað.
Þessi stirðleiki minnir mig á söguna af Trausta vini mínum í Skógarnesi sem er að dunda við það á efri árum að gæda ferðamenn um fjörurnar. Hann er eftirsóttur í það enda mikill öðlingur heim að sækja. Hann tók eitt sinn sem oftar að sér að leiðsaga hóp frá Skógarnesi að Stakkhamri .Fjaran bíður ekki segir máltækið og ekki hollt að slugsa mikið í áningum í fjöruferðum. Hópurinn sem var seint fyrir og þurfti að hvíla hestana eftir innreksturinn og hvíla þá enn betur á áningastöðunum og þegar lagt var á fjöruna undan Laxárbakkavíkunum sýndist mönnum álarnir eitthvað hafa breikkað. Að sögn heimildarmanns míns sem er ákaflega traustur sem slíkur, þegar kemur að frásögnum af svaðilförum, var samt látið vaða og skipti engum togum að allt fór á hrokasund. Kom sér nú vel hversu vel hvíld hrossin voru. Fannst mönnum um tíma að þeir væru komnir út á Faxaflóa og leist þeim ekki á blikuna. Trausti sem var fremstur vildi nú fylgjast með hvernig samreiðarmönnunum farnaðist á sundinu en þá kom í ljós að þessi stirðleiki í snúningnum á hálsi og hrygg þjakaði hann líka. Hann gerði sér þá lítið fyrir og sneri klárnum á sundinu , leit rannsakandi yfir hópinn sneri síðan aftur við og leiddi þá farsællega til lands. Þótti malbiksmönnunum þetta firn mikil . Óþarft er að taka fram að þegar landi var náð voru hrossin hvíld mjög rækilega.
