25.02.2008 23:34

Vantalin framleiðsla.

   Rúnar dýralæknir kom í dag. Ekki til að kíkja á Atla sem er óvinnufær,  heldur á kú sem í þriðja sinn er að fá "bráðasúrdoða" sem hefur verið svo til óþekkt fyrirbrigði hér.
 Hinn hefðbundi súrdoði heldur sér sem betur fer algjörlega til hlés enn.7-9-13..
Þessi ágæta þrautræktaða kú er neðarlega í goggunarröðinni og leikur grunur á að hún fái ekki matfrið í kjarnfóðurbásnum. Þeir sem alltaf eru að finna eitthvað nýtt upp af dóti fyrir bændurnar ættu að drífa í því að betrumbæta kjarnfóðurbásinn þannig að sú sem inní hann fer, sé varin fyrir frekjudósunum. Stundum tek ég rögg á mig og veð í uppsafnaðan letivanda og í dag var mjaltabásinn tekinn í gegn og spúlaður en það á að gerast vikulega samkvæmt skipuritinu.
 Þá barst í dag ákaflega merkilegt bréf frá Búvest . Þar kom fram að innlögð mjólk á siðasta verðlagsári var um 6.000,l. meiri en mæld mjólk hjá búinu. Við þennan mismun bætist síðan  mjólk til heimanota (kálfar og fólk) ásamt júgurbólgumjólk sem hellt er niður o.sv.frv. Já annaðhvort eru mælarnir á búinu eða á bílnum eitthvað dularfullir. Það var nú munur í gömlu góðu dagana þegar bætt var 5-10 % ofan á handvirku mælingarnar við skráninguna ,þá komu nú ekki upp svona vandamál.
 Rétt til að vera skemmtilegur í lokin er aftur kominn vetur og lausi snjórinn hefur verið á góðu skriði framhjá í dag á leið til sjávar.
Flettingar í dag: 382
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 3095
Gestir í gær: 75
Samtals flettingar: 808610
Samtals gestir: 65366
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 09:12:14
clockhere