24.02.2008 22:55

Töfradrykkurinn.

 Alltaf þegar ég kemst upp fyrir túngirðinguna hjá mér er einsog tilveran breytist aðeins og einhver tilfinning sem ekki er hægt að lýsa hellist yfir mann. Ég skynjaði þetta sterkt í dag þegar ég brunaði yfir girðinguna þar sem hún lá undir 2 m. skafli, á alvörusleðanum hans Atla sem var svo veikur ( helv. hálsbólgan)  að hann lagði ekki í snjósleðaferð. Og það verður að viðurkennast að viðbrögðin á benzíngjöfinni á sleðanum og olíugjöfinni á fjórhjólinu sem ég hafði verið að þvælast á um morguninn eru ,ja, svona dálítið ólík. Núpáin var alauð frá upptökum og skar í sundur snjósleðalandið en það var í lagi. Það var damlað á nokkrum mínútum upp að Svörtufjöllum og inn með þeim að vestanverðu. Stoppað á Sjónarhæðinni og horft yfir Tungurnar. Ég var ekki hár í loftinu þegar ég smalaði fyrst þarna með systkinunum.  Seinna þegar ábyrgðin og hlaupin færðust yfir á mig af auknum þunga fann ég þarna uppsprettu í gili sem hafði undraverð áhrif. Það var sama hvað ég var þreyttur, eftir að hafa svolgrað í mig uppsprettuvatnið fyllist ég orku og krafti sem entust mér til loka leitarinnar. Mörgum, mörgum árum seinna þegar ég las myndasögurnar um Gallana þá ,Andrík ,Sjóðrík,Steinrík og alla hina uppgötvaði ég hvað rann uppúr lindinni góðu. Nú er allri leitartilhögun breytt í Tungunum, ég smala þær einn í stað þriggja áður og hef ekki komið að lindinni árum saman. Kannski væri rétt að sækja  svosem eins og 50 lítra í hana að ári og gefa Austurbakkamönnum til að auka úthald þeirra á þorrablótinu.
 Eftir þessar uppflettingar á harða diskinum var dólað austur fyrir Svörtufjöllin og innundir Hest. Þar þveraði ég refaslóð, þá fyrstu eftir að ég fór uppúr dalnum.
 Þar var aftur stoppað athugað í hvora áttina rebbinn fór. Það var þungt færi og óskiljanlegt hvað hann er að þvælast þarna uppi á fjallgarðinum þar sem ekki sést einu sinni hrafn á flugi. Trúlega veit hann ekki hvað uppnám ríkir í röðum ljósaveiðimanna.  Fyrir mig var það hinsvegar ólýsanleg upplifun að vera þarna aleinn í algjörri auðn, logni og sól. Pínulítið mannkerti milli Þrífjallanna og Hestsins og göngufærið vonlaust ef sleðinn færi ekki í gang.

  Sem sagt stórfínn dagur.

 
Flettingar í dag: 382
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 3095
Gestir í gær: 75
Samtals flettingar: 808610
Samtals gestir: 65366
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 09:12:14
clockhere