18.02.2008 21:58

Hrossa og tófuskytterí.

  Fyrir réttri viku átti leið hér um sunnanvert nesið vopnaður náungi/náungar  sem einhverra hluta vegna sá ástæðu til að skjóta brúntoppótta hryssu þar sem hún lá um 50- 70 m. ofan þjóðvegar við Rauðkollstaði. Annaðhvort hefur hann verið á hrossaskytteríi eða hann hefur villst á hrossinu og einhverju öðru. Það eru ekki mörg ár síðan svokölluð ljósaveiðí byrjaði en þessi veiðiaðferð hefur vaxið hröðum skrefum og er nú stunduð af stórum hópi skotveiðimanna. Því miður er misjafn sauður í mörgu fé og ekki allir sem átta sig á þeirri dauðans alvöru sem liggur í stóra rifflinum þeirra. Ljósaveiðarnar fara þannig fram að ekið er um, gjarnan tveir saman með ljóskastara sem lýst er með til beggja handa í leit að veiðibráð, refum á ferð í myrkrinu. Þegar þeir lenda í geislanum glampar í augum jafnvel í km. fjarlægð. Þó ég hafi nú reynt ótal veiðiaðferðir hefur mér aldrei tekist að slysa niður ref í bílljósum enda brotaviljinn ekki nógu einbeittur. Ég fjárfesti þó í mögnuðum kastara sem var á tilboði í Bílanausti á sínum tíma og tók nokkra rúnta í framhaldi af því en þessi aðferð höfðaði ekki til mín.

  Svo ég snúi mér aftur að hryssunni fannst hún á þriðjudagsmorguninn með snyrtilegt kúlugat ofan við vinstra auga. Kvöldið áður gekk á með éljum og manni finnst trúlegast að byssumennirnir hafi verið á suðurleið , séð glitta í auga,. verið illa ljósaðir ,skotið fyrst og spurt svo. Svona menn eiga ekki að hafa byssuleyfi því ef þetta hefur verið svona, er þeim ekki treystandi við aðrar aðstæður. Sumt sem maður upplifir í grenjavinnslunni er ógleymanlegt þegar annað stoppar stutt við. Ég minnist þess alltaf þegar refurinn sem ég var búinn að bíða eftir að komast í færi við í um 8 klt. birtist uppi á hæð í ásættanlegu færi en bak við hæðina var sveitin og um km. í næsta bæ. Ég vissi að annaðhvort færi hann sömu leið til baka og óvíst að hann sæist meir , eða hann færi til hægri hliðar þar sem óhætt yrði að hleypa af skotinu. Þá var erfitt að halda aftur af gikkfingrinum. Því miður fyrir refinn tók hann ranga ákvörðun.
 
Já það er eins með skotveiðarnar og áfengið. Það eru víst rónarnir sem koma óorði á brennivínið.

 
Flettingar í dag: 382
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 3095
Gestir í gær: 75
Samtals flettingar: 808610
Samtals gestir: 65366
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 09:12:14
clockhere