16.02.2008 10:43

Þorrablót og afadagar.


  Nú standa blótin sem hæst hér á sunnanverðu nesinu en Austurbakkamenn héldu sitt loksins í gær eftir að hafa frestað því vegna þrálátrar austanáttar sem þeir óttast öðru fremur. Miðað við hversu hressir þeir eru sem sóttu það héðan, hefur þetta trúlega ekki verið nema þriggja stjörnu blót. Þó skilst mér að skemmtiatriðin hafi verið með besta móti og jafnvel toppað árið sem öll atriðin voru flutt í þremur útfærslum svo menn næðu þeim örugglega.
 Undirritaður mun ásamt sinni heittelskuðu blóta þorrann  í Staðarsveitinni í kvöld svo fremi sem heilsan hjá henni leyfi.( Nú verður dekrað við hana í dag sem aldrei fyrr.)
 
  Dótturdóttirin sem er ársgömul síðan í sept. er í leikskóla 3 daga vikunnar og er föstudagurinn og stundum fimmtudagurinn líka, svona afa og ömmudagur. Hún bætir nú ört við orðaforðann og áttar sig jafnframt sífellt betur á því að afinn og amman gera allt sem hún biður um. (Það er dálítið síðan ég tók þá ákvörðun að fara ekki með henni gegnum stórmarkað næstu árin.)  Flótlega eftir að hún fæddist fór móðir hennar að benda afanum á það að sú litla ætti nú ekkert folald. Eftir því sem sú stutta eltist jukust þessar ábendingar og þar sem ég er orðinn sjóaður í því að koma mér upp undankomuleiðum þegar að mér er sótt,  gerði ég þeim mæðgum tilboð sem þær gátu ekki hafnað. Ef fyrsta orðið sem sem sú litla segði væri afi, skyldu hún fá folald. Þetta var samþykkt og var nú ekki minnst á folaldsleysi dótturdótturinnar framar. Hinsvegar fór mig að gruna það að umræðan við þá litlu væri dálítið einhæf og afi bæri þar oft á góma. Þar sem liggur fyrir og hefur ekki verið hrakið, að það fyrsta sem börn á Nesinu segja er NEI, var ég samt tiltölulega áhyggjulaus jafnvel,  þó ég stæði ömmuna að því að taka þátt í innrætingunni. Sú litla er svo heppin að líkjast afa sínum ákaflega lítið og hefur það valdið mér pínulitlu hugarangri en mér hefur þótt það dálítið kúnstugt að þrátt fyrir að orðaforðinn sé orðinn þó nokkur er alveg brennt fyrir að afi sé nefndur á nafn. Á dögunum var móðirin að fara yfir orðaforða dótturinnar og fá hana til að segja eitt og annað og endaði síðan á að segja með sínum blíðasta róm.  Afi ,segðu afi. Og þá kom þrjóskublandaður glampi í augun með aðeins svona kergjuívafi og sú stutta hristi ofurhægt höfuðið. Þá gladdist mitt gamla hjarta yfir því að þarna væru nú einhver gen fyrir hendi sem rekja mætti þráðbeint til afans.
Flettingar í dag: 645
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 3095
Gestir í gær: 75
Samtals flettingar: 808873
Samtals gestir: 65371
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 09:57:32
clockhere