13.02.2008 22:40

Hlýindi og kvef.


 Já það gerðist jafnhliða að það brustu á hlýindi  með vor í lofti (eða þannig) og gömlu hjónin kvefuðust hvort í kapp við annað.Þar sem frúin er alvön þessu kippti engin sér upp við það(vinnur í skólanum)  en ég er óvanur því að meðtaka einhverjar umgangspestir og er voða lítill í mér þessa dagana.Ég mokaði samt alveg obboð af snjó í gær í gerðinu í Söðulsholti, þó reyndar sæi ekki högg á vatni og það rifjaðist upp fyrir mér sú skoðun frá oddvitaárunum í gamla daga að versta fjárfesting sem til væri er að setja peninga í snjómokstur þegar allt fylltist umsvifalaust aftur.
  Við gömlu refirnir í bændastétt sem þekkjum kalhættuna síðan í gamla daga og vitum að undir snjónum leynist klakaskán á túnunum, biðjum nú bæði Allah og alla hina guðina, um að þessi hlýindi dugi nú til þess að allt þiðni nú af túnunum okkar svo dýri áburðurinn nýtist nú sem best í sumar. Ég er ekki viss um að ungu bændurnir blandi sér í bænakórinn því þarna eru ákveðnir hagsmunaárekstrar í gangi sem blandast vélsleðaeigninni. Reyndar átti ég eftir að bruna yfir fjallið og kíkja í Stóra Langadalinn sem mér er sagt að sé fjárlaus núna. Það vildi ég gjarnan sjá, því mig rekur ekki minni til þess að hafa komið í hann fjárlausan á þessum árstíma og væri gaman að upplifa það. En nú ætla ég að fá mér eitthvað krassandi í hálsinn svo ég verði þorrablótsfær um helgina.
Flettingar í dag: 382
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 3095
Gestir í gær: 75
Samtals flettingar: 808610
Samtals gestir: 65366
Tölur uppfærðar: 3.4.2025 09:12:14
clockhere