07.02.2008 23:04

Hvellur

 
Þó ég kvarti sjaldan undan veðrinu hér á nesinu ætla ég ekki að halda því fram að það hafi verið gott í dag. Reyndar var það fínt á leiðinni út í fjós í morgun ,jafnfallinn ca. 30 cm snjór og logn. Fljótlega fór að kula og uppúr 8 var komið snælduvitlaust veður.
 Það stóð á endum að þegar ég var að snurfusa mjaltabásinn að loknum mjöltum fór rafmagnið. Þar sem um sama leiti kom útkall frá Hrossholtbændum um að þeir hefðu reynt utanvegaakstur með slæmum árangri, var Atli sendur í björgunina en ég fór inn og hellti uppá kaffi með rebbaprímusnum mínum sem fannst eftir nokkra leit. Það var nokkur huggun að hitaveitan sem er afar tæknilega útbúin með varaafl sem kemur sjálfvirkt inn í rafmagnsleysi virkaði. En sá galli fylgir tækninni að e.h. klikkar helst þegar veður eru vond. Þegar rafmagnið kom síðan aftur um hádegisbil brá svo við að ekkert heitt vatn skilaði sér lengur  úr krönunum. Gamli bóndinn braust því niður að borholu og þar reyndist hafa slegið út öryggi við enduræsinguna. Þetta á ekki að gerast og nú verða tæknigúrúarnir látnir svara til saka þegar veðri slotar. Veðrið fór að ganga niður milli élja sem kom sér  vel því koma þurfti inn rúllum fyrir féð í báðum hlöðum/húsum.  Það er síðan ljóst að á morgun verður mikill moksturdagur og gott að nú eru vanir menn á ferðinni. Og austurbakkamenn aflýstu blótinu sem átti að vera annað kvöld, enda var það mikið ógæfumerki að skella því á, ofaní námskeiðið hans Gunna. Ég mun síðan sjá um að viðri vel fyrir námskeiðið  um helgina.
 Og eins gott að ekki var öskudagur í dag.
Flettingar í dag: 1123
Gestir í dag: 6
Flettingar í gær: 4717
Gestir í gær: 90
Samtals flettingar: 841693
Samtals gestir: 66363
Tölur uppfærðar: 19.4.2025 03:36:07
clockhere