07.01.2008 12:03
Sæla og hamingja.
Ég er oft spurður að því hvað ég segi eða hvað sé að frétta o.sv.frv.
Oftast er ég skjótur til svars og segi allt fínt eða í sveitinni sé tóm sæla og hamingja og allt fullt af peningum eða eitthvað í þeim dúr.
Með um tveggja vikna millibili hafa tveir kunningjar mínir, þungaviktarmenn í landbúnaðargeiranum hinsvegar spurt mig nánast sömu spurningarinnar.Hvernig hljóðið væri nú í okkur bændunum með tilliti til framtíðarinnar.Þeim fyrri svaraði ég með einhverju í anda þess sem ofar er ritað,menn væru bara nokkuð hressir o.sv.frv. Þegar því samtali lauk fór ég að fá bakþanka yfir svarinu sem ég vissi að var kannski ekki allskostar rétt.Ég var því nokkuð vel undirbúinn þegar hinn kunninginn hringdi í mig á dögunum og færði þetta m.a. í mál fljótlega í samtalinu. Ég hugsaði mig því vel um í símanum og reyndi að gera mig eins gáfulegan og mögulegt var (það er dálítið erfitt eins og menn vita) og fór síðan yfir málið.
Jú það væri búin að vera góð sigling á okkur og bjartsýni í landbúnaðinum í nokkur ár en nú væri róðurinn að þyngjast. Það sem væri að slá á bjartsýnina væru fyrst og fremst hækkanir á þeim rekstrarkostnaði sem viktar mest.Hækkanir á áburði , fóðurbæti og blessaðri olíunni væru að þyngja reksturinn verulega og sér alls ekki fyrir endann á því. 40 - 50 % boðuð hækkun á áburði þýddi t.d. um 400.000 kr. viðbótarútgjöld fyrir grundvallarbú í mjólkurframleiðslu. Mjólkurframleiðslan mun væntanlega ná einhverju af þessu til
baka með hærra mjólkurverði í framtíðinni en það verður erfiðara í sauðfénu.
Ég gætti þess að minnast ekkert á skuldir og vaxtaokur því þá væri ég trúlega að tala við hann ennþá. Til að koma bjartsýninni aðeins að bætti ég við að margur bóndinn ætti aðeins innistæðu í því að auka hagræðinguna og bæta
reksturinn til að mæta þessum aukna rekstrarkostnaði.Hinir sem hafa þá þætti í lagi yrðu hinsvegar að taka þetta af laununum sínum.
Þannig að nú stend ég klár með tvær útgáfur þegar ég er spurður "gáfulegra" spurninga. Tóm sæla og hamingja eða allt í skelfingu.
Skrifað af Svanur