04.01.2008 22:30

Klakalaus jörð!


    Eftir að hafa sinnt gegningum,föðurhlutverki og afahlutverki fram á hádegi var lagt á fjóhjólið og tekinn rúntur um akrana. Og viti menn þeir voru að langmestu leyti klakalausir. Þar sem frosið höfðu pollar var smáskán sem hægt var að stinga niður úr með stunguskóflu. Hinsvegar voru þeir sem fyrr of blautir til plægingar svo plógurinn var ekki settur fyrir í dag.
   Að þessari niðurstöðu fenginni var rúntað áfram niður í hitaveitu og hlustað á malið í dælunni þar sem hún dældi um 5 sek.l. útá 15 km lagnirnar en það samsvarar 400 og eitthvað kw. orku. Til fróðleiks skal upplýst að við þetta er notuð um 5-6 kw. orka frá landsneti. Hringnum var síðan lokað með viðkomu í  í Söðulsholti þar sem folöldin  ásamt upprennandi stóðhestum þremur að tölu stóðu úti í grænni töðunni voru skoðuð sérstaklega. Til þess að fullkomna daginn tók Funi sig útúr hópnum og tók hring um flötina á eftir Vask sem löngu er búinn að læra það að hann má ekkert vera að abbast uppá hrossin nema hann fái skýr fyrirmæli um það..
 Í hesthúsinu var allt á fullu,  26 hross á járnum eða rétt ójárnuð og verið að leggja á brúnskjóttan stóðhest ásamt snillingnum honum Vestra úr Ólafsvík.
  Já reiðhöllin fékk víst frí í dag í góða veðrinu..
 
Flettingar í dag: 189
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 839
Gestir í gær: 52
Samtals flettingar: 809256
Samtals gestir: 65402
Tölur uppfærðar: 4.4.2025 04:38:19
clockhere