Færslur: 2010 Júní

29.06.2010 19:31

Að sjá ljósið, drekka kaffi og heyja með látum.


Sunnudagsmorguninn var erfiður hjá okkur feðgunum.

 Nei, nei, það var ekkert svoleiðis??

 Það var veðurspáin sem var dálítið óljós fyrir næstu dagana. Góður þurrkur á sunnudeginum en svo voru spárnar misvísandi, allar sólarlausar  en mismunandi mörg dropaský og á mismunandi dögum.

 Við drukkum kaffi og skoðuðum spárnar og drukkum meira kaffi.

Það er talsverð áhætta fólgin í því að slá 20 - 30 ha. og ná heyinu ekki ásættanlega þurru í plastið.

 Kl. var orðin hálf ellefu þegar við slógum í borðið og ákváðum að slá.

Eins og öllum sem sjá ljósið létti okkur ákaflega, yfirgáfum hálfa kaffibollana og 15 mín síðar var slátturinn hafinn á fullu.



 Sláttugræjur búsins, aðra sláttuvélina eigum við með hestamiðstöðinni.Til gamans má geta þess að litla græjan er að afkasta nákvæmlega jafnmiklu og hin með meira en helmingi færri hestöfl og minni  olíueyðslu en "aðeins " minni þægindum. Sú stærri er með knosaravél sem er notuð á það þurrkvandara.

 Klukkan fimm var slætti lokið,  kúatúnin í Hrútsholti slegin, ásamt nýræktum hestamiðstöðvarinnar eða um 23 ha.
Mokgras, en þarna er hluti túnanna með blönduðum gróðri sem farinn var að spretta úr sér.

 Eins og fyrri daginn reyndist veðrið talsvert öðrvísi en spárnar,en sem betur fer miklu betra.

Þurrkurinn á mánudeginum var enn betri en sunnudagsþurrkurinn og um kvöldið vorum við langt komnir að rúlla í Hrútsholti og þetta kláraðist síðan í dag. Þurrkstigið mjög fínt.

 Nú er eftir að slá fyrir hrossin og miðsvetrarheyið fyrir rollurnar en það verður að spretta hæfilega úr sér, svo sá búpeningur springi ekki úr ofáti.

 En tveggja daga fríið sem við, mín heittelskaða ætluðum að leggja af stað í um hádegisleyti á sunnudag er algjörlega óframið enn.

 En Árneshreppurinn fer nú ekki langt þó allt sé í heiminum hverfult.emoticon 

26.06.2010 06:16

Þrífjöllin í öskublönduðu sólsetri.

Svona litu fjöllin mín út í myndavélinni hans Jonna í þetta eina sinn sem við Snæfellingar fengum smjörþefinn af öskumistri.


                                                                                                                               Mynd Jónatan Guðjónsson.

  Skyrtunnan, Svörtufjöll og Hesturinn . Neðst til hægri sést Barnaborgin þeirra austurbakkamanna.

24.06.2010 20:38

Að slá og slá. - og slá um sig.

Það var ekki sko slegið við slöku þessa daga en tekið hraustlega  því.

 Seinnipart mánudags og á þriðjudaginn voru slegnir um 30 ha.



 Langmest af þessu eru vallarfoxtún í góðri ræktun, því svo er byggræktinni fyrir að þakka að endurræktun er sinnt af mikilli kostgæfni.

Grasið var ekki farið að skríða en farið að leggjast nokkuð.
Við vildum fá heyið þokkalega þurrt og rúlluðum það svo í gærkvöldi og í dag.
Vindurinn var nú talsvert meiri en spárnar okkar sögðu og mátti ekki meiri vera.
En þetta slapp til.



 Við notum fastkjarnavél ( það er toppurinn)  í eigu Yrkja ehf.og höfum rúllurnar 140 cm í þvermál.
Það þýðir u.þ.b. 50 % meira heymagn en í 120 cm. rúllu sem kemur einkar vel út fyrir bæði fóðrun, flutning og ekki síst plastnotkun.

Vélin er leigð út fyrir fast rúllugjald og í því er bæði plast og net.
Það eru bara tveir bændanna sem vinna með hana, aðallega Atli.

 Sprettan var fín þrátt fyrir síminnkandi áburðarskammt, en eingöngu er notaður köfnunarefnisáburður á þessi tún ásamt mykjunni.

 Nú er sem sagt fyrri slætti lokið í hér Dalsmynni fyrir utan um 2.5 ha. tún sem rollurnar voru að japla á þar til þeim var vísað til fjalls.  Það verður tekið með rollutúnunum sem eru á annarri jörð og ekki verða slegin strax.

Reyndar er eftir að tína saman rúllurnar.

Síðan á eftir að heyja um 15 ha. í Hrútsholti sem verða teknir í næsta þurrki.

Og eitthvað munum við svo koma að heyskap Hestamiðstöðvarinnar.

Svo verður komin há.

Síðan kemur haust.

Já, þetta lítur út fyrir að verða skemmtilegt sumar.emoticon
Flettingar í dag: 251
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 6132
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 659697
Samtals gestir: 58326
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 14:14:19
clockhere