Færslur: 2008 Maí

31.05.2008 08:45

Selir og sveitalubbar.

  Það varð uppi fótur og fit hjá selaþvögunni framundan Þórishamrinum þegar við Atli Sveinn komum fram á brúnina þar sem varnarlínan lokar fjörunni að hamrinum. Þeir lágu á sandinum við álinn sem næstur var, en undanfarin ár hafa þeir legið einum ál utar.
  Þeir voru heppnir að ég var með, því annars er óvíst að sá yngri hefði getað stillt sig með riffilinn í aftursætinu. Þegar við fórum að loka girðingunni komu þeir næstu  í  40 -50 m. fjarlægð og virtu þessa sveitalubba fyrir sér af mikilli athygli. Þeir eru í kindabyssufæri muldraði sá yngri og sló hamrinum í stálfiskikar sem stóð þarna sem kjölfesta í girðingunni. Umsvifalaust hvarf hver einasti haus undir yfirborðið og leið drykklöng stund þar til þeir birtust á ný hver á fætur öðrum. Þegar þeir komu úr kafinu litu þeir rannsakandi hringinn í kringum sig , líkt og þeir væru að telja félagana.

  Fjaran þarna er breytileg frá ári til árs og í fyrra leist mér ekkert á þróunina, því sandurinn hafði hækkað og állinn lá fjær berginu og var grynnri en undanfarin ár.
  Nú var skipt um og greinilega gengið á ýmsu í vetur. Grjóturðin lamist upp og hækkað við bjargið en sandfjaran lækkað og állinn dýpkað og lá nú nær bjarginu en ég hef séð áður. Þetta var til nokkurs hagræðis fyrir girðingarmenn sem luku verkinu á mettíma enda rigning og byrjað að falla að.  Nú er lokið að fara fyrstu umferð með varnarlínunni nema efst í fjallinu og hef ég aldrei lokið þessu í maí fyrr.

     Batnandi mönnum er best að lifa.

29.05.2008 23:38

Varnarlína. Taka 3.



                Hér horfum við upp Einbúabrekkuna og girðingin orðin snjólaus, sem kom skemmtilega á óvart.  Ofan við brúnina má segja að eyðimörkin taki við ef mosagrónir og síðan gróðurlausir melar og sandar flokkast undir það. Efst í brekkunni er girðingin lausnegld þannig að lykkjurnar dragast út þegar skaflinn sígur og þar bíða strengirnir heilir og lykkjurnar við staurinn þegar mætt er á vorin. Fyrstu tvö árin mín var það mikill saumaskapur að koma slitrunum saman og útkoman frekar óhrjáleg en núna er þetta allt annað líf og þegar ég kom að þessu í dag ákvað ég að geyma til næsta árs að strekkja þetta upp. Í þessu girðingarviðhaldi eru slíkar ákvarðanir  óhugnanlega algengar.     Það má segja að frá Einbúabrekkunni og innúr sé ástandið á girðingunni farið að daprast verulega þó nokkrir kafla séu nýlegir. Vegna sandroks/veðurhæðar endist galvanhúðin á vírnum bara í nokkur ár og síða ryðgar vírinn niður á nokkrum árum.  Í hvert skipti sem ég fer þarna um í fyrstu vorferð er ég ákveðinn í því að fara nú að hætta svo einhver sprækari geti vaðið í að girða þetta upp. Þetta var að sjálfsögðu ákveðið í dag.  Girðingin var þó ekki eins illa farin og búist var við þó dálítið þyrfti að negla upp og bæta. Þessi snjór sem kom í vetur var laus í sér ,kom ekki í stórviðrum og það virðist minnka álagið á girðinguna þegar hann sígur. Við komumst þó ekki nema uppfyrir " Krosspýtu" en þarna uppi  var talsverð aurbleyta. Inná sandi var girðingin að hluta undir snjó og það sem upp var komið mikið slitið niður enda illviðrasamt þarna uppi.   Girðingin þarna er þó síðan í fyrra og dapurlegt að sjá hvernig komið var fyrir henni. Það verður síðan tekinn dagur í það eftir 2-3 vikur að loka þessu.

  Maður er síðan alltaf jafnundrandi  á því að koma fjórhjólunum til byggða með heil dekk því slóðinn þarna upp er virkilega leiðinlegur á köflum, urðir og eggjagrjót.
   Fyrir áhugamenn um girðingar og landslag eru nokkrar myndir á albúmi.

  Ve

28.05.2008 23:36

Varnarlína. Dagur tvö.






  Það eru alltaf hálfgerð ónot í manni þegar þar er komið í viðhaldinu á varnarlínunni á sunnanverðu nesinu að kíkt er á girðinguna yfir Laxána. Þó þetta sem sést hér að ofan sé ekki glæsilegt er þetta þó með skárra móti. Í gær var farið með girðingunni frá þjóðvegi að Skógarnesvegi og í dag frá þvóðvegi að Laxá. Fyrst þegar ég byrjaði í þessu bölvaði ég gaddavírnum mikið. Ég er löngu hættur því og ekki ólíklegt að gaddavírsgirðingar muni sjást í Dalsmynni þar sem alvöru girðing á að setjast upp.
  Ég hef hinsvegar lært það að girðingahanskar og girðingahanskar geta verið tveir gjörólikir hlutir. Og þegar ég býð út efni í girðingu læt ég alla bjóða , öll merki, .þó ég viti nákvæmlega hvaða gaddavírstegund og vírlykkjutegund verði keypt. Sem betur fer vita sölumennirnir það ekki og samkeppnin er hörð. Og ríkið græðir. Þó þetta sé þræladjobb er eitthvað sem heldur í mann . 
Kannski svona dagur ,þar sem allt er að lifna í fjallinu og skyrtuveður inn með hlíðinni. Ástandið á girðingunni var nokkuð gott á þessu svæði og notalegt að dóla á fjórhjólinu meðfram þessum köflum sem girtir hafa verið upp síðustu árin, hinir voru  ekki svo slæmir þó þar sé einn ,nokkur hundruð metra kafli sem þyrfti að girðast upp í sumar.

  Já það er kominn gróður og nú geta Kata og Siggi farið að reka úr túninu.

Flettingar í dag: 358
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 6132
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 659804
Samtals gestir: 58326
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 14:35:20
clockhere