Hrossin.

         

  Gamlir og góðir á fjörunum. Hyrjar er seigur þó hann fari að eldast. Kallinn líka.



                              Funi frá Dalsmynni tveggja vetra.
                              M. Von frá Söðulsholt. F. Parker frá Sólheimum.


 Fyrir margt löngu áður en búskaparbaslið heltók gamla bóndann var mikið stússast í hrossum. Hestamennskan lagðist síðan að mestu leyti af um árabil en nú eru aðstæður breyttar og ræktunaráhuginn endurvakinn og mikið farið á hestbak.

  Á næstu jörð, Söðulsholti, er búið að byggja upp klassa aðstöðu fyrir tamningar og ræktun og er ýmiskonar samkrull í gangi um rekstur og ræktun en fyrrverandi heimasæta í Dalsmynni, Iðunn Silja og sambýlismaður hennar, Halldór(Dóri) sjá um rekstur Hestamiðstöðvarinnar í Söðulsholti  www.sodulsholt.is/  .


                              Von nýköstuð  með Hágangssoninn Takt, hennar Höllu Sifjar.

    Ræktunarhryssan mín, hún Von frá Söðulsholti. Eina hryssan sem ég á eftir af gamla Dalsmynnisstofninum en ég var steinhættur hrossarækt á tímabili.



  Taktur sá glófexti,  á folaldasýningu  í des. 2008. Brokkar og töltir.




 Smala og reiðhestarnir Hyrjar Otursson frá Dalsmynni og Stígandi frá S. Skörðugili, haustið 2008. Hyrjar er kominn á aldur og vandfundinn hestur sem fyllir skarðið hans.


 Þrymur frá Dalsmynni sýnir spænska sporið ásamt eigandanum, heimasætunni á bænum.
  

 

  Fjóla frá Árbæ. 33 % eignahlutur.



Fjóla með Flákasoninn Flugarr frá Dalsmynni vorið 2011.


Dökkvi fæddur 2009 með móðurinn Von. Dökkvi er undan Eldjárn frá tjaldhólum.



Sjá myndaalbúm

Móalingur. - Víða um fjöllin drýgðum dáð/djöfull góðir saman.


 Það var um 1960 sem Móalingur kom í heiminn. Hann var dökkur til að byrja með. siðar steingrár og endaði hvítur.

 Hann var nokkurra daga gamall þegar önnur hryssa á bænum missti nýkastað folald og þetta endaði þannig að hann gekk undir báðum hryssunum.

 Þær gerðu ekki endasleppt við hann því undir þeim báðum gekk hann næstu tvö árin.

Þrátt fyrir þetta varð hann ekki nema meðalhestur að stærð, frekar stuttur og bolmikill, hálsstuttur en fangreistur í reið.

 Það var farið að leggja við hann fjögurra vetra því margt benti til þess að hann yrði öflugur og erfiður í tamningu.
 Móalingur var skapharður, ákaflega ör/kvikur og varð strax mjög viljugur. Hann var samt alveg hrekklaus og mesta furða hvað hann hlýddi taumhaldinu enda mikið teymdur í upphafi tamningar eins og löngum var gert heima , sérstaklega ef eitthvað þurfti að hafa fyrir tryppunum.

 Hann var mikill brokkari að upplagi , ferðmikill og mjúkur á brokkinu þegar hann hamdist á því.
 Þegar móðurinn var sem mestur á honum hamdist hann samt ekki á neinum gangi, heldur víxlaðist áfram með miklum gusugangi með makkann í fangi knapans og stutt í rokuna ef taumhaldið var gefið eftir.
 Ég var ekki hestvandur á þessum árum og þó faðir minn ætti þann steingráa kom að því að
ég lagði hann undir mig að mestu.


 Móalingur t.v. Glaumur t.h.                                                                    mynd Elín Þorsteinsd.

 Þessum mikla vilja fylgdi svo alveg óhemju þrek og úthald og hefur hann væntanlega búið að uppeldinu fyrstu 2 árin.
 Þrátt fyrir ýmsa annmarka og skort á reiðhestshæfileikum sem ég geri kröfu um í dag fannst mér nokkuð til hans koma.
Hann var algjörlega hiklaus að fara allt sem ég beindi honum að og ekki þurfti að hvetja hann, aðeins að slaka á taum og það var vaðið út í hvað sem fyrir var.
Eins og aðrir mínir bestu smalahestar vissi ég aldrei af honum í taumi ef eitthvað þurfti að ganga með honum. Hann fylgdi mér eins og skugginn án þess að koma við mig eða taka í taum.
 Ég var stundum dálítið ófyrirleitinn á þessum árum og ekki alltaf farið rólega.
Seinna velti ég því fyrir mér að eitthvað hefði vakað yfir okkur þegar tæpast var farið.

 Móalingur var fyrsti hesturinn sem ég smalaði með í Tungunum og ekki ótrúlegt að hann hafi verið fyrsti hestur í Íslandssögunni að fara þar um í leit. Það átti við um fleiri svæði.
 Það var í smalamennsku á Núpudalnum sem ég sé kindur vera að tapast hátt sunnaní Dalsmynnisfellinu og góð ráð voru dýr.
Þá var hleypt upp hlíðina uppað klettum og síðan skellt sér upp Axlargjána sem ég hafði nú aldrei farið hvorki fyrr né síðar.



  Ég var ákaflega feginn þegar við stóðum á brúninni, blésum mæðinni og kíktum niður gjána.
En ánægjutilfinningin þegar við snerum hópnum af villu síns vegar var hinsvegar nokkuð sterk.
 
  Og þeir eru ekki margir klárarnir sem ég fundið þörf fyrir að kveðja í bundnu máli.


     Móalingur

Aldrei saman sýndum kíf.

Söng oft hátt í grundum.

Þegar okkur lék við líf.

Léttan fórum stundum.

 

Á óveg varstu aldrei kveif.

Oft í smalaskaki.

Þar sem að ég klungur kleif.

Komst þú fast að baki.

 

Ófærð fleyttumst yfir hratt.

Óðfús hroðann renndi.

Þó að eitt sinn færum flatt.

Fátt það okkur kenndi.

 

Taum ei slaka mátti í mund.

Því mjög þú vildir ráða.

Skaphörku ei skorti í lund,

skjótur varst til dáða.

 

Mörg var tvísýn hildin háð.

Að harkinu var gaman.

Víða um fjöllin drýgðum  dáð,

djöfull  góðir saman.
                             sg.

Dagbjartur Sagði:

Páll Jónsson frá Skeggjastöðum í Fellum orti:

Lífs á göngu er gerast fá
gleðiföng og dvína.
Hugur löngum heyrir þá
hófasöngva þína.

Það er ótrúlega mikill munur að vera ríðandi eða að labba um með hross í klofinu.
04.Janúar 2011 22:44 (þriðjudagur)

Sigrún G Sagði:


Þetta var skemmtileg lesning um Móaling...og vísurnar góðar !!!
-Þegar talað er um Móaling fer maður ósjálfrátt að hugsa um Skugga. En þeir voru jafngamlir og alltaf til, meðan ég var heima :)
04.Janúar 2011 23:48 (þriðjudagur)

IHJ Sagði:

Góðan dag Svanur, líklega er´ann nokkuð hvass hjá þér á þessum föstudagsmorgni. Góðar kveðjur.
07.Janúar 2011 09:40 (föstudagur)

Ransý Sagði:

Gamalt og fallegt nafn á hesti Móalingur:)Þú hefur snemma fengið þá þörf að hemja óþekktar skjátur upp um fjöll og firnindi.Gaman að lesa um sögur frá því í "gamla daga":)
08.Janúar 2011 14:34 (laugardagur)

svanur Sagði:

Takk fyrir vísuna Dagbjartur og þið hin fyrir commentin.

Ransý , einu sinni var nú ætlunin að vera með eitthvað gamalt og gott einusinni í mán. á síðunni en hún hefur nú þróast í allar áttir síðan og sér ekki fyrir endann á því.
 

Hyrjar frá Dalsmynni. In memorian.

 Þau eru orðin nokkur hrossin sem hafa farið um hendurnar á mér í gegnum tíðina.

Í endurminningunni eru það sérstaklega 3 klárar sem standa algjörlega uppúr, þó þeir væru hver með sínum hætti.  Allir áttu þó sameiginlegt að vera örviljugir, úthaldsmiklir  og flugrúmir.

 Hyrjar var fæddur 20 júlí 1988 undan Gjóstu frá Dalsmynni og Otri frá Sauðárkrók. Það var engin önnur en mín heittelskaða sem átti Gjóstu og þar með litla brún sem reyndar var næstum svartur.

 Hann gekk undir folaldsveturinn og þroskaðist vel en varð strax ljónstyggur og var um sig þegar mannskepnan var annarsvegar. Hans aðalgangur var skrefmikið brokk þegar niður af stökkinu kom.

 Á fjórða vetur tók ég hann á hús enda sýndist mér að talsvert þyrfti að dúlla í honum áður en sest yrði í hnakkinn. Hann var ákaflega var um sig á húsi enda ljónstyggur enn. Það kom svo í ljós þegar átti að lauma á hann múl og síðar beisli að eyrun voru algjört bannsvæði og varði hann þau af mikilli útsjónarsemi.

 Hann var fljótlega færður á þann bás sem gengið var framhjá við ýmis störf og var þá gjarnan laumast upp í básinn hjá honum.
 Það var komið vel fram á veturinn þegar allt í einu náðist samkomulag um að létta banninu af eyrunum og kúvendingin var slík að í stað þess að snúast til varnar kom hann með höfuðið á móti manni í beislið.
 Að öðru leyti hafði tamningin gengið vel , fljótur að teymast og var taugasterkur og góður í umgengni þó styggðin væri alltaf til staðar. Hann var mikið teymdur og hnakkvanur í marslok, tilbúinn að taka við manninum í hnakkinn. Þá hefur líklega kjarkinn brostið hjá bóndanum því Hyrjari var komið til ungs tamningarmanns sem þennan vetur var hjá Sigrúnu í Hömluholti.

 Sléttum mánuði seinna  kom Toni ( Anton Níelsson) svo ríðandi í hlaðið á þeim brúna, sagði mér aðspurður að hann væri algjörlega hrekklaus og ekki myndi ég verða fótgangandi á honum þegar fram liðu stundir.

 Hyrjar kom fljótt með viljann, kannski of fljótt. Hann varð flugrúmur á bæði brokki og tölti og ákaflega mjúkur á brokkinu. Skipti mig litlu í ferðum eða vinnu á hvoru hann fór.



  Veturinn eftir frumtamninguna gaf frúin mér svo klárinn, enda trúði  tengdafaðir hennar  henni fyrir því að hann myndi nú ekki henta henni sérlega vel.



  Hyrjar sætti sig ákaflega illa við að hafa aðra á undan sér í samreið sem skapaði aftur ákveðin vandamál sérstaklega þegar ég lenti í ferðum með hestamanni sem þoldi alls ekki að hafa einhvern á undan sér í forreiðinni.

 Klárinn var einstakur karakter  og þó hann væri oftast styggur og stundun ljónstyggur gat hann allt eins átt það til að standa eins og klettur þegar ég gekk að honum.
 Í smölun var hann frábær, því fyrir utan dugnaðinn og úthaldið fór hann einfaldlega það sem honum var beint á og í taumi fylgdi hann eins og hundur á hvað sem var farið, án þess að maður vissi af honum.


Snilld, Assa og Hyrjar en það var hans helst galli í smalamennskum að ekki var gefið að hann næðist ef hlaupið var frá honum lausum.

 Hér er smá pása í erfiðri leit á Rauðamellsfjallinu, sökkvandi aur í öllum holtum og leiðinda veður.



 Dokað eftir rekstrinum við Ytra Skógarnes á leið austur Löngufjörur.


               Bára frá S. Skörðugili. Þrymur frá Dalsmynni og Hyrjar.
 Hér er Selsfjallið að baki en þetta var fyrsta og síðasta smalamennskan sem annar en ég smalaði á Hyrjari. Ég held að Tengdadóttirin  hafi verið nokkuð sátt við öldunginn þó mesti ofurkrafturinn væri úr honum þarna.

 Hann átti til ýmsar tiktúrur m.a. að taka svo miklu ástfóstri við einhverja hryssu að hann mátti ekki af henni sjá. Í upphafi ferðalaga nældi hann sér undantekningarlaust í eina slíka í fyrsta næturhólfi og hélt henni fyrir sig út ferðina. Varði hana á áningarstöðum og fylgdi henni eins og skugginn í rekstri.

 Meðan  Von var notuð undir hnakk var hún sú eina sanna og í rekstri var hann alltaf  næstur á eftir henni og síðan lestuðu aðrir Dalsmynnishestar sig á eftir þeim.
 Ég sætti því lagi ef ég var einn með hóp að leggja á Von eða teyma hana en láta Hyrjar hlaupa,  þá lestaði restin sig fallega á eftir mér.
 
Nú er Hyrjar allur og eitthvað klikkað í keðjunni, því ekkert er í hendi til að fylla í skarðið.

Trúlega hefur bóndinn eitthvað hrakist af leið í ræktuninni.
Flettingar í dag: 146
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 6132
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 659592
Samtals gestir: 58324
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 10:39:23
clockhere