Færslur: 2012 Júlí

29.07.2012 21:37

Korka, kálhausarnir og steratröllin.


 Vegna fjölda áskorana verðu þetta blogg helgað grænum fingrum, aðalbænda Dalsmynnis sem eru helteknar af margskonar grænfóðurræktun til manneldis.

 Til þess að koma mér í gírinn verð ég þó að byrja á einhverju enn skemmtilegra viðfangsefni.



 Þó við Korka eyðum alltof litlum tíma í að ná samkomulagi um vinnulag  og sitthvað smávegis er orðið nokkuð ljóst að þar mun nást ásættanleg niðurstaða áður en lýkur.



 Þ.e.a.s ef okkur endist líf og heilsa. Þó fullkomleikinn náist ekki fyrir þessa haustvertíð þá koma væntanlega fleiri haust með fé í haga.

 Já. þegar vökvað er þá getur fátt komið í veg fyrir sprettu í þessu tíðarfari.



 Brokkkálið er allt að koma til nema það sem þegar hefur verið troðið í heimilisfólkið.



 Svona lítur útigangurinnn út .Jarðaber og laukar í kerjunum og kál, spínat og kartöflur sprautast upp í braggahverfinu.


 Og svona er umhorfs í gamla gróðurhúsinu þrátt fyrir stöðuga kálflutninga í eldhúsin.



 Spínatið hefur t.d. örugglega bjargað því að ég hef ekki fengið skyrbjúg þetta sumarið.



 Yngra  hvítkálsgengið er að koma til og innar eru tómat og kryddplöntur ýmiskonar sem best er að hætta sér ekki út í að skilgreina nánar.



 Það er hinsvegar ekki allt sem sýnist með kartöflurnar. Þær eru víst eins og hann stera Pétur telur suma vaxtarræktarmennina vera. Mikið að ofan en minna undir þeim

26.07.2012 07:47

Lagt út á þjóðveginn.

 Það fór aldrei svo að sumarið liði án þess að kampernum væri ekki skellt á pallinn og dólað út á þjóðveginn.


 Við Systrakot á Hjalteyri.

Það eru tvær meginreglur á slíku ferðalagi. Ekki stoppa í sjoppum og forðast hefðbundin tjaldstæði ef mögulegt er.

 Fyrra markmiðið hrundi um leið og leiðsögumaður ferðarinnar dró upp " vegabréf " frá dótturdótturinni. Sú hafði náð samningum við ömmuna um að safna stimplum  fyrir sig í öllum N 1 sjoppum sem á leið hennar yrðu.

 Stimpillinn fékkst svo ekki nema verslað væri fyrir 300 kall svo þetta þýddi óbein útgjöld og það að ýmis óhollustu lenti í bílnum sem þýddi aftur freistingar sem að sjálfsögðu var fallið fyrir.

 Þessum ferðamáta fylgir hinsvegar mikið frjálsræði og skipulagsleysi sem hentar undirrituðum afar vel þegar markmið númer eitt er að elta sólina.

 Það var ekki farið af hringveginum fyrr en kom að Svartárdal en það er alltaf dálitil upplifun að dóla þar inneftir og spá í búsetuna en þarna held ég að mér myndi finnast dálítið þröngt um mig i búskap. En Svartáin vegur kannski eitthvað upp á móti skorti á láglendi.


 Þetta fyrrverandi húsnæði á Bergstöðum hefur munað sinn fífil fegri en ekki kann ég skil á krossinum og grjóthleðslunni framan við það . Kannski einhver lesandinn geti upplýst um það.( sjá athugasemdir).



 Bergstaðarkirkja féll einhvernveginn vel inní dalinn og er greinilega vel haldið við.



 Hvort þetta er heilsárshús eða sauðburðaraðstaða er svo spurning sem ekki verður svarað hér.



 Þessi margstofna Ösp stóð við hliðarveginn að Stafnsrétt og Kiðaskarði. Hún hefur eflaust átt óblíða æsku. Þann veg tók ég í þetta sinn en næst mun ég fara aðalveginn áfram upp á hálendið.



 Stafnsrétt er alltaf sérstakt augnayndi og einhverntímann fyrir margt löngu þegar ég gaf mér tíma í allskonar grúsk lá ég yfir sögnum og sögum um viðburði þar bæði gamanmál og slysa og hrakfarasögur.

Þetta er í þriðja sinn sem Kiðaskarð, sem liggur á milli
Svartárdals og Skagafjarðar er farið og jafnoft hef ég heitið því að fara þennan andskota ekki aftur. Á leiðinni upp snarbratta sneiðingana frá Stafnsrétt fékk ég það hvað eftir annað á tilfinninguna að nú myndi Kamperinn skríða aftur af pallinum. Svo illa fór þó ekki.



Eftir góða gistingu á Goðdalafjalli var dágóðum tíma eytt í samgöngusafninu í Stóragerði.

Virkilega gaman að stoppa þar.

 Það hefur verið meira ævintýrið að slá á þessum tún og engi sem trúlega hafa verið misjöfn yfitferðar.



 Hér var Miklilax í Fljótum með mikla starfsemi á tímum laxeldisævintýrisins. Nokkur kenntöluskipti dugðu því ekki til lífs en þarna skilar sér á staðinn mikið magn af heitu vatni sem gæti boðið uppá einhverja möguleika einhverntímann.


 Hér var staldrað við hjá fallegum fossi innarlega í Svarfaðardal. Ef myndin er skoðuð vel sést huldukonan sem kom til mín úr klettinum þarna.



Þetta áhugaverð skjal var á samgöngusafninu í Stóragerði og minnti óþyrmilega á gengna tíð sem kemur aldrei aftur.

Eða hvað??????????

19.07.2012 23:41

Glötuð blogg og glapstigar.

 Oft kemur fyrir þegar eitthvað snilldarbloggið er svo til fullmótað á harða diskinum í hausnum á mér að ég þarf að finna mynd eða fletta uppá eldra bloggi í heimildarleit.

 Myndaalbúmin í tölvunni eru nú frekar óskipulögð og að mestu raðað eftir tímaskeiðum.

Sama má segja um bloggin sem eru eins og þið vitið. skipulagslaus vaðall um ótrúlegustu hluti.

Og þá gerist það hvað eftir annað að ég gleymi mér í myndum eða bloggum og fyrr en varir er kominn háttatíma og snilldarbloggið góða gleymt og grafið og sést aldrei né heyrist,  eins og reyndar svo ótalmargt annað sem hverfur í fallvaltleik lífsins í daglega amstrinu. ( hátíðlegt hjá mér.)

 Svona fór þetta í kvöld svo ég ákvað að smella hér inn smásýnishorni af þvi sem glapti mig.



 Þessi fossaröð er innst á Núpudalnum  í Núpánni sem á upptök sín í dalverpi innan gilsins hér, Leirdal. Á hægri hönd er Moldarmúlinn sem liggur uppað Skyrtunnu.



 Núpáin rennur reyndar ofaní þessu gili  og er þá komin nokkuð hundruð m. neðar,Hér sést í munnann á Geithelli en af honum dregur talsvert landsvæði þarna nafn, Geithellistungur. Þær liggja frá Núpánni að Svörtufjöllum og Skyrtunnu.



 Þessi móbergsklettur heitir því sérstaka nafni Grenstrípur. Þegar ég fór að fara þarna fyrst um í leitum smágutti, var stóri bróðir sem nú er reyndar landsþekktur sem yfirmúrari Íslands, Gösli sjálfur, leiðsögumaður minn og örnefnakennari. Þegar ég innt hann eftir tilurð örnefnanna sagði hann mér gjarnan miklar sögur tengdar örnefnunum og kennileitunum. Ég komst síðar að því að örnefnin voru oftast rétt . En sögurnar voru samt góðar.


 Þessi landamerkjavarða uppi á Dalsmynnisfellinu er á milli Þverár og Dalsmynnis. Hér er horft til suðurs eftir landamerkjunum og þegar ég horfði á myndina áðan, sá ég nú að eðlilegast væri að línan endaði í Eldborginni.



 Hér er horft eftir landamerkjunum í hina áttina. Skyrtunna til v. Svörtufjöll t.h.



 Hér er horft í sv. á norðurenda Hafurfellsins. Þríhnjúkar á h. hönd þó vanti þriðja hnjúkinn á myndina.
Næst á myndinni er suðurhlið Grenstríps sem fyrr er nefndur.

Svona gæti ég haldið endalaust áfram.
Flettingar í dag: 1050
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 758
Gestir í gær: 36
Samtals flettingar: 666839
Samtals gestir: 58515
Tölur uppfærðar: 27.11.2024 05:20:42
clockhere