Færslur: 2014 Október

21.10.2014 20:43

Regnþolið fé og lausafé allskonar.

 Fyrsti snjórinn þetta haustið féll í nótt. Þá dugði ekki annað en setja allt á fullt til að gera klárt til að taka inn lömb og veturgamalt. 

  Dagurinn tekinn í að moka út úr fjárhúsunum og síðan var sett inn í kvöld, lömb og veturgamalt sem höfðu haft það fínt á grænfóðurakri sem ekki náðist að slá aftur vegna einhverrar rigningar sem settist hér að um tíma í haust.




 Það verður væntanlega bólusett við garnaveikinni á morgun og síðan verða lömbin úti í nokkra daga í viðbót ef veður leyfir áður en þau verða tekin inn og afulluð.

Aldrei þessu vant hefur verið fjárfest í allskonar fénaði í haust.




 Þetta er forystutilvonandisauðurinn Eitill, en hér hefur ekki verið til forystukind í um hálfa öld.

  Planið er að gera tilraun með að temja hann eins og tíðkaðist hér áður fyrr meir þegar sauðirnir hlýddu orðum og bendingum húsbænda sinna eins og hundarnir mínir gera í dag.  emoticon 

  Takist það ekki er auðvitað ljóst að þetta nútíma forystufé er náttúrulega ekki nema svipur hjá sjón miðað við forfeður sína. 

  Eins og ég hef reyndar látið óspart í ljósi eftir að kexruglað "forystufé " fór  að verða til vandræða hér sem og væntanlega annarsstaðar. emoticon

 

 Það var svo ákveðið að koma hér upp smá kollóttum fjárstofni og í framhaldinu var farið í fjárkaupaleiðungur í Reykhólasveit og norðanverðan Steingrímsfjörð.




   
 Hér er alltaf notaður kollóttur hrútur á gemlingana og nú á að reyna að láta hann verða til á búinu í stað þess að standa í stöðugum hrútakaupum til að sinna þessu. Eftir að rögunagangurinn er kominn fullkomlega í gagnið skipta handföngin mun minna máli í amstrinu.



 Hér sést þegar allt var á fullu í ómskoðun og stigun í líflambavalinu. Rigningarnar í sumar og haust voru ekki mjög vaxtahvetjandi fyrir lambfénaðinn og var meðalvigtin kg. minni en í fyrra , sem var reyndar slæmt ár. Fór niður í 17 kg. sem er óásættanlegt. emoticon

 Það er því ekki um annað að ræða en skrúfa fyrir rigningarnar að einhverju leiti  eða að fara að rækta regnþolið fé .

 Trúlega er þó best að halda sig við það að fyrst botninum var ekki náð í fyrra er hann pottþétt þetta árið. 

 Svo nú lítur þetta bara vel út fyrir næsta haust. emoticon

16.10.2014 08:22

Haustannállinn .


  Það verða alltaf viss skil í haustinu þegar flutningabíllinn fer með sláturféð í hvíta húsið.

 Slaknar á öllu, þó endalaus verkefnin séu alltaf fyrir hendi. 



 Eftir að stytti upp leikur veðrið við okkur þó gosmistrið slái aðeins á kætina. Bygguppskeran náði neðstu lægðum annað árið í röð og nú má passa sig á að fara alls ekki að reikna út " hagnað " og meðaltöl . 


                                               Ekkert svona í boði þetta árið.

  Það gæti alveg eyðilagt góðu áhrifin frá betra tíðarfari. Meira að segja hálmuppskeran varð að einhverju pínulitlu í stórrigningunum. Meðalvigtin á eðallömbunum var kg. minni en í fyrra en þá var hún kg. minni en árið þar áður. Spurning hvernig það endar emoticon . 

  Heimturnar eru orðnar ásættanlegar . Vantar nokkur stök lömb og eina veturgamla með lambi. Sú mætti gjarnan skila sér . 
 Ég á samt inni eftirleitaskrepp hér á fjallgarðinum því búið er að staðsetja 3 dilkær sem komið hafa inná svæðið eftir smalamennskur og eftirleitir. 


 
Staðsetningin á þeim er auðvitað þannig að það munu fara 3 dagar í að ná þeim. 
 Og náttúrulega allar ókunnugar. emoticon

  Á hverju hausti velti ég því fyrir mér að ef ég gæti sent eigendunum reikning fyrir mig, fjórhjólið og hundana við að ná þessum eftirlegukindum, myndu þær hætta að vera til á örfáum árum. 
 Langt síðan ég ræktaði út hjá mér kindur sem skila sér ekki í fyrstu smalamennskum. 


 
Nú liggur svo fyrir að draga undan smala og ferðahestunum ásamt tamningafolunum og þeir verða síðan trúlega í fríi fram á næsta vor .
  Og eins og vanalega mun ég trúlega lifa af skammdegið sem nú hellist yfir, í vissu þess að það sé ekki svo langt í að daginn taki að lengja á ný. 

Þó ég verði nú trúlega lítill inni í mér eins og stundum gerist í skammdeginu. 

En þá er bara að vona að vorið og sumarið sem væntanlega mun hellast yfir mann áður en lýkur muni verða aldeilis frábært. emoticon


                                  Á ferð um Suðursveit 2008 .                       

Já nú er bara að sökkva sér niður í pælingar um ótroðnar slóðir, gamalla hestaleiða næstu vikurnar.emoticon

03.10.2014 08:40

Sýnishorn úr stuttri glímu í Hafursfellinu.

  Ég hafði fylgst með einlembu í Þverdalnum nokkra daga og beðið eftir að það færi saman laus tími hjá mér og sú einlembda lækkaði sig í dalnum.


 Svo var það einn sunnudagsmorguninn að komið höfðu í dalinn tvær tvílembur í viðbót.  Voru rólegar framyfir hádegið svo hækkuðu þær  sig uppundir kletta austan Þverdalsins þá var ákveðið að taka létta æfingu með hundana og tengdasoninn.


 Þetta varð mikill sprettur inn hlíðina þar til hundarnir komust uppfyrir og inn fyrir hópinn.
 Fénu lá svo mismikið á þegar hundarnir beindu þeim niður. Einlemban og önnur tvílemban fóru á fullri ferð  .  Aðrir tvílembingarnir voru hinsvegar búnir að fá nóg af spretthlaupum og lögðust   báðir með um hundrað m. millibili.

Hin tvílemban , mórauð forystuær hafði hinsvegar tekið upp nýja varnaraðferð frá síðasta hausti þegar hún kom í fyrri leitinni og stoppaði ásamt lömbunum hvar sem hún fann barð eða stein sem hún sá skjól í.
Þegar búið var að koma forystunni og lömbunum tveim niður á jafnsléttu var farið að huga að þeim sem undan höfðu komist.


  Svona gengur þetta allt haustið . Svæðið dauðhreinsað í leitinni eins og núna en síðan kemur fé inná það einhverstaðar af fjallgarðinum , Sumt langt að komið.
  • 1
Flettingar í dag: 251
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 6132
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 659697
Samtals gestir: 58326
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 14:14:19
clockhere