Færslur: 2011 Júní

28.06.2011 18:09

Eruð þið með á greni???

 Mér finnst alltaf meira til fjallagrenjanna koma, þó kannski blási oft kalt og stundum sé svo lágskýjað að maður lendir upp í skýjum lágnættisins í orðsins fyllstu merkingu.
 Maður er öruggari með sig og kann betur á rebbann þar, heldur en niðri á láglendinu þar sem kannski gerir áttleysu þegar verst gegnir og allt fer í uppnám.

 Og ekki er hægt að jafna saman umhverfinu með neinum  jákvæðum hætti fyrir flatneskjuna.
 Ég ætla að því leyfa ykkur að verða samferða á uppáhaldsgrenið sem að sjálfsögðu er innst á Núpudalnum

 
Hér fyrir miðri myndinni er móbergsdrangurinn Grenstrípur en á bakvið hann ber Steinahlíðarkollinn við himin og rétt grillir í toppinn á Skyrtunnunni fram af honum.



 Hér er sjálft grenið en ég fór ríðandi á það í þetta sinn. Ég þori að fullyrða að það hefur ekki verið gert áður enda síðasti 1/2 km ekki neinn hestavegur en þetta svæði er undantekningarlítið smalað gangandi.



 Gatkletturinn eða Gatsteinninn stendur hér stakur innaf Grenstrípnum en undir honum er gat sem glittir í, á myndinni.



 Hér er horft til suðurs frá greninu niður Grengilið og til v. sést fremst í Grenstrípinn og fremsta hluta Hvítuhlíðarkollsins fjær.



 Fyrstu árin mín í vinnslunni var oft á þessu greni og yrðu dýrin vör við mig komu þau gjarnan fram á brúnina hér ( vesturátt) til að taka vind af mér og átta sig á stöðunni. Eftir að ég eignaðist alvöruriffil gátu þau farið flatt á því.



 Það er svo sameiginlegt með öllum þessum móbergsmyndunum að þegar gerðist lágskýjað urðu þær óþekkjanlegar og mér fannst ég sjá skimandi rebbahaus uppfyrir allar brúnir.



 Hér sjáið þið svo Hrafnaklett. Hérna megin hans er djúpt gil, Háahryggsgilið sem sést ekki. Hinumegin klettsins er Hvítuhlíðarhvappið og við himin ber Hvítuhlíðarkollinn þar sem hann teygir sig upp að Múlabrekkunum.

 Þetta verður væntanlega síðasta grenjabloggið mitt, allavega þetta árið og takk fyrir að fylgja mér alla leið hingað.

26.06.2011 16:31

Bygg,olía,feit ár og mögur.

Allt frá því að Faraóinn dreymdi 7 feitar kýr og 7 magrar hafa menn lifað í þeirri vissu að árferðið væri á sífelldri hringrás og góðærinu fylgdi að lokum dapurt árferði og öfugt.

 Það er þó sem betur fer til fullt af bjartsýnismönnum sem trúa því að góðæri sé komið til að vera og fyllast endurnýjaðri bjartsýni þegar aftur kemur vor í dal í aprílok og sumrin verða á ný eins og þau eiga að vera.

 Það er búið að ganga fínt í bygginu í nokkur( örfá) ár og þegar kemur fram áhugavert yrki til olíuræktar förum við sem höfum gaman af að rótast í fósturjörðinni með fína dótinu okkar, á flug.


Svona litur byggakurinn út sem síðast var sáð í og þar sér maður ekki gulnuð blöð í bland eins og á þeim elstu.

 Það er líklegt að þetta vor og sumar muni ná okkur aftur niður á jörðina en þó verður spennandi að sjá hvernig ökrunum reiðir af í svona árferði.

Akurdoðran sem á eftir að gera okkur ríka þegar góðærið kemur aftir inn í hringrásina fór of seint niður og fer sér rólega í þurrkunum. Nái hún að þroskast á þessu sumri er ljóst að það eru bjartir og orkumiklir tímar framundan.


 Svona leit hún út í dag og fyllti mig sannri gleði því langt að séð er akurinn fjarri því að vera að taka lit.


 Svona leit hann út í nálægð og fyrrnefndur byggakur sem sáð var í á sama tíma er til vinstri.

 Já það gæti í versta falli farið svo að þetta byggár verði líkt þeim fyrstu þegar ræktendurnir réttlættu byggræktunina með því að hún væri svo skemmtileg. 

 Mér finnst hún nú reyndar bara skemmtileg þegar vel gengur.

En ég held að sjálfsögðu hinu fram þegar allt er komið í klessu.

23.06.2011 08:28

Grenjavinnslan.

 Það er óhætt að segja að þrautseigur norðanblásturinn og kuldinn hafi sett mark sitt á grenjavinnsluna þetta árið.

 Það er liðin tíð að veiðiáhuginn drífi mann á greni í vafasömu veðurútliti enda  reynslan harður skóli í þessum bransa og augnabliksklúður fljótt að setja allt í uppnám.

 Nú sér samt fyrir endann á vertíðinni þetta árið og þó það hafi gengið á ýmsu hefur oft gengið verr.


                             Grjóthleðslan t.h. var hlaðin um kvöldið til að taka af mesta blásturinn.

 Svona var vinnuaðstaðan á síðasta greninu. Reyndar sést ekki á myndinni að þarna var um 15 - 20 m. vindur og hitamælirinn í bílnum sýndi 2 gr. þegar komið var niður um fimmleytið í gærmorgun.

 Þó  enn eigi eftir að kíkja á nokkur gren er líklegt að ekki verði unnin fleiri  þetta árið en það var á 5 þekktum grenjum og grunur um a.m.k. 3 óþekkt, en skráð greni eru á annað hundrað í sveitarfélaginu. Það eru tvö gengi sem eru í vinnslunni og skipa Dalsmynnisbændur annað þeirra.



 Þetta greni er gott dæmi um breytta hegðun tófunnar en það fann ég eftir 2. ára snuðr, í kílræsi og trúlega er innan við 1 km. í loftlínu á næsta bæ.
 Nú verður reynt að taka tíma í að finna  óþekktu grenin en þó við vitum nokkuð um veiðisvæði viðkomandi dýra eru það oftast tilviljanir og heppni sem verða til þess að nýtt greni finnst.

 

 Hér sést alvöru klassa fjallagren sem ekki hefur verið á árum saman en hér eins og víðar er lágfóta komin niður í byggðina og þar er væntanlega þau greni að finna sem vantar í bókhald grenjaskyttnanna.
Flettingar í dag: 358
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 6132
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 659804
Samtals gestir: 58326
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 14:35:20
clockhere