Færslur: 2010 Mars

30.03.2010 22:26

Að þreyja Þorrann og Góuna.

 Þó það vanti töluvert á að ég sé nógu metnaðargjarn finnst mér þó alltaf betra að vera í vinningsliðinu.

 Ég er enginn vildarvinur skammdegisins og þegar dagsbirtan er orðin mun lengri en myrkrið, er ljóst að sigurgangan er jafn örugg og í fyrra. Hún mun svo ná hámarki í júní og alls ekki tímabært að fara að velta fyrir sér komandi skammdegi og væntanlegum ósigri þess .


 Já það tókst með miklum ágætum að þreyja þorrann og góuna og einmánuður er á lokasprettinum.

 Þegar þessi tími er kominn í sveitinni´, fer allt á fulla ferð og vorið er komið fyrr en nokkur veit og örstutt í allt of stutt sumar.

 Miðað við verkefnalistann sem er óðum að hlaðast inn á harða diskinn er þetta árlega kapphlaup um að ljúka vorverkunum í réttri röð, á ásættanlegum tíma að hefjast af fullum þunga og eins gott að halda ró sinni en fara ekki á taugum.

 Það á eftir að sækja skeljasand og kalka nokkra akra og síðan bíður húsdýraáburðurinn þess að komast á akra og tún.
 
Jarðvinnsla og sáning þyrfti að byrja seinnipart aprílmánaðar ef guð lofar.

 Þá mun sauðburður líka hefjast og rétt að ljúka nú þessari upptalningu svo ég geti sofnað fyrir áhyggjum.

 Nú er stefnt að því að sá byggi í um 22 ha. og er þetta í fyrsta skipti sem við stefnum að því að rækta umfram notkun á búinu. Reyndar er verið að skoða það að bæta próteini og steinefnablöndu í byggið og hætta öðrum kjarnfóðurkaupum.

Það myndi þýða talsvert aukna bygggjöf á búinu.

 Finnist ekki flötur á því verðum við væntanlega með umframbygg í sölu, sem þýðir ákveðna uppstokkun á söludæminu því það er afdráttarlaus krafa um það hjá búinu, að þetta dæmi gangi upp peningalega.

Með tilliti til ofanritaðs er rétt að taka fram að hér er ekkert stress í gangi.emoticon

Það er áratuga reynsla fyrir því að þetta reddast allt.emoticon

27.03.2010 23:50

Batnandi bændum er best að lifa.

Það virðast hafa blásið ferskir vindar um sali bændahallarinnar meðan að kúabændur þinguðu þar í vikulokin.

  Og nokkuð ljóst að fulltrúar þar, voru búnir að átta sig á að nú fara breyttir tímar í hönd.

 Þó eftirfarandi tillaga virðist nú frekar sett fram sem hugmyndabanki en afdráttarlaus krafa um breytingar eru hún þó mun stærra skref í átt til raunveruleikans en lengi hafa verið tekin á þessum vettvangi.

 Það er að vísu nokkuð ljóst að flest af þessu mun ganga sjálfkrafa eftir þegar fer að þrengja  að greininni en ágætt að setja þetta fram samt.

Tillaga 5 ( stytt).

Til að ná þessum markmiðum leggur fundurinn til að staðfastlega verði unnið að því að lækka framleiðslukostnað um 35% á næstu 10 árum. Til að það náist þarf sérstaklega að huga að eftirfarandi:

- Draga verulega úr kostnaði greinarinnar vegna viðskipta með greiðslumark.

- Öll viðskipti með kvóta verði á kvótamarkaði

- - Ræða þarf sérstaklega um stærðarþróun í greininni. Hvaða áhrif hefur mjög ör þróun haft, m.a. á verð greiðslumarks? Er hægt að ná markmiði um lækkun framleiðslukostnaðar samhliða takmörkun á stærð einstakra rekstrareininga? Á að hækka framleiðsluskylduna?

- Draga úr fjárfestingakostnaði í vélum og öðrum tæknibúnaði

- Auka rekstrarvitund bænda.

- Leiðbeiningar og rannsóknir taki í auknum mæli mið af hagkvæmnissjónarmiðum.

- Reynt verði að þróa frekar verktöku/samvinnu í landbúnaði.

- Bæta nýtingu  fjárfestinga í nautgriparæktinni.

- Víða er ónýtt pláss í fjósum, hagkvæmara er að nýta það heldur en að byggja meira

- Auknar afurðir bæta nýtingu fjárfestinga.

- Lægra vaxtastig er nauðsyn í landbúnaði eins og öðrum atvinnurekstri, en er þó á annarra höndum en bænda.

 - Fóðuröflun og fóðurverkun þarf að verða ódýrari.

- Bætt áburðarnýting. 

- Bætt fóðurnýting

- Lægri vélakostnaður.

- Hugsanlega aðrar verkunaraðferðir.

- Notkun nýrra fóðurplantna, t.d.nýrra grasstofna og belgjurta.

 

- Betri kýr.

- - Kýrnar eru aðal framleiðslutæki kúabænda. Betri kýr eru því lykilatriði í aukinni hagkvæmni.

6. Aðalfundur Landssamband kúabænda, haldinn á Hótel Sögu 26.-27. mars 2010, vekur athygli á nýjum möguleikum sem skapast hafa í kynbótum nautgripa með tilkomu nýrrar þekkingar við val kynbótagripa. Þessar aðferðir verða hins vegar ekki nýttar nema hjá stórum kúakynjum sem innihalda mikla stofnstærð og er áhyggjuefni hversu gífurlegur munur verður á aðstæðum stórra og lítilla kúastofna vegna þessa. Því hvetur fundurinn fagþjónustu landbúnaðarins í samvinnu við hagsmunaaðila að leita allra leiða til að treysta samkeppnisstöðu íslenskrar nautgriparæktar.

Greinargerð

Um þessar mundir eiga sér stað gífurlegar framfarir í kynbótum nautgriparæktar á heimsvísu. Farið er að velja kynbótagripi á grunni greininga á erfðamenginu. Þessi aðferð er talin geta aukið kynbótaframfarir um tugi prósenta samanborið við núverandi ræktunarskipulag og er talin vera sambærileg bylting og tilkoma sæðinga var á sínum tíma. Þessi tækni nýtist hins vegar ekki nema hjá þeim kúastofnum sem hafa mikla stofnstærð og þar sem skýrsluhald er áreiðanlegt. Af þessum völdum má búast við að aðstöðumunur til aukningar afkastagetu og hagkvæmni í mjólkurframleiðslunni milli stórra og lítilla kúastofna muni aukast gríðarlega, þeim minni í óhag.  

 Og þegar ég las 6 tillöguna hér fyrir ofan duttu mér allar dauðar lýs úr höfði.emoticon

Ályktanir fundarins sjá. Hér

25.03.2010 23:02

Kýrnar í fótsnyrtingu.

 Í fyrsta skipti sem Guðmundur Hallgríms. birtist með klaufskurðarbásinn í fjósinu gekk mikið á.

 Þá höfðu varla verið snyrtir kúafætur í Dalsmynni  frá upphafi landnáms og talsverð þörf á að taka til hendinni eða fræsaranum.



 Þetta var því klaufskurður í orðsins fyllstu merkingu og næstu dagana á eftir hét ég mér og kúnum því, að Guðmundi yrði ekki sleppt inn í fjósið aftur, allavega ekki með snyrtibásinn meðferðis.



 Guðmundur var hinsvegar ekki í vandræðum með að tala okkur til og nú þegar hann hefur komið árlega í nokkur ár er þetta ekki klaufskurður lengur, heldur svona fótasnyrting.
 Hann var hér á ferðinni í gær og nú gekk þetta hratt og vel fyrir sig, um 16 kýr á klst.



 Eins og allir vita er snyrtimeistarinn mjög sérstakt fyrirbrigði af homo sapiens sem lýsir sér með margvíslegum hætti.

 Til dæmis er hann eitt örfárra eintaka karlmanna sem eiga mjög auðvelt með að tala og vinna samtímis. Vegna hávaða í fræsara og básnum nýtist honum þessi ágæti hæfileiki illa við klaufsnyrtinguna og missti Atli Sveinn því af margri góðri sögunni í gær.



 Þrátt fyrir nokkra reynslu af skelfingum bássins ganga kýrnar ótrúlega vel inn í hann og þó það sé liðin tíð að blóðslóðir sjáist, voru samt nokkrar með slæma strengi í dag, enda fengu þær ekki að stinga sér í heita pottinn í gærkvöldi eins og sá aldraði.

 Svona dagur er líka veruleg röskun á hefðbundnum rólegheitum í lausagöngunni og hún var því með minna móti mjólkin sem streymdi í tankinn í gærkvöldi.

Það er svo það sama með klaufsnyrtinguna og rúninginn, og reyndar fjölmargt annað í búskapnum.


 Alltaf jafn gott þegar að það er að baki.emoticon
Flettingar í dag: 251
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 6132
Gestir í gær: 145
Samtals flettingar: 659697
Samtals gestir: 58326
Tölur uppfærðar: 23.11.2024 14:14:19
clockhere